Haldið áfram að bæta gatnakerfið við Snorrabraut og Borgartún

Samgöngur

""

Framkvæmdir eru að hefjast við annan áfanga í gerð nýrra gatnamóta Borgartúns og Snorrabrautar sem aðlaga gatnamótin betur að núverandi gatnakerfi. Framkvæmdirnar eru hluti af stærri breytingum á gatnakerfi Snorrabrautar, Borgartúns og Bríetartúns frá Sæbraut að Hverfisgötu við Hlemm.

Loftmynd af svæðinu Mynd/Arctic Images - Ragnar Th.

Framkvæmdirnar eru unnar í samstarfi við Veitur og Gagnaveitu Reykjavíkur.

Gatnamót Borgartúns og Snorrabrautar verða upphækkuð og ljósastýrð. Einnig verður Bríetartún tengt við Snorrabraut og Borgartún og líka verða breytingar á tengingu Hverfisgötu 113, húsnæði Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, við Snorrabraut.

Breytingarnar eru í samræmi við deilskipulag sem samþykkt var fyrr á árinu fyrir Hlemm og nágrenni. Hlemmur tekur stakkaskiptum á næstu árum og verður mikilvægur tengipunktur almenningssamgangna, bæði Borgarlínu og strætóleiða, kjörstaður fyrir gangandi vegfarendur og vettvangur mannlífs fyrir ólíka viðburði.

Nýir göngu og hjólastígar

Aðgengi vistvænna ferðamáta verður líka bætt verulega í kringum Hlemm. Liður í því er gerð nýrra göngu- og hjólastíga í þessari framkvæmd nú sem bætir leiðirnar í gegnum svæðið. Einnig verður jarðvegsskipt og lagðar nýjar fráveitulagnir og niðurföll ásamt öðrum veitulögnum.

Nánar um hvað felst í verkinu

Verktakinn D.Ing-Verk ehf. varð hlutskarpastur í útboði.  Verkið felst í að grafa og fylla í götu og gangstéttar, grafa og fylla vegna fráveitu- hitaveitu-, háspennu- og götulýsingarlagna, leggja fráveitu-, hitaveitu- og götuljósalagnir, grafa fyrir og leggja ídráttarrör vegna umferðarljósa ásamt tengibrunnum, reisa ljósastólpa og umferðarljósastólpa, malbika, leggja kantstein, leggja hellur og ganga frá hliðarsvæðum. Ganga frá yfirborði með götugögnum og öðrum mannvirkjum í samræmi við útboðsgögn.

Tímasetningar

Verktakinn er að koma sér fyrir á svæðinu og hefjast framkvæmdir á næstu dögum. Þessum öðrum áfanga verður skipt í nokkra fasa. Í fasa 3 sem hefst í haust verður lokað fyrir umferð á Snorrabraut alveg frá Skúlagötu 46 og að Sæbraut. Opið verður milli Snorrabrautar og Borgartúns og Snorrabrautar og Bríetartúns. Viðeigandi merkingar verða settar upp á framkvæmdasvæðinu vegna lokana á verktíma. Áætlað er að framkvæmdir standi yfir fram í nóvember á þessu ári.