Nýtt deiliskipulag fyrir Hlemmsvæðið samþykkt

Samgöngur Skipulagsmál

Nýtt deiliskipulag fyrir Hlemmsvæðið var samþykkt 11. mars í skipulags- og samgönguráði en tillagan var sett í auglýsingu 16. desember. Tekið hefur verið tillit til athugasemda en þær snérust helst um aðgengi, bílastæði, umferðaflæði, vörulosun og sorphirðu.

Hlemmur verður mikilvægur tengipunktur almenningssamgangna, bæði Borgarlínu og strætóleiða, kjörstaður fyrir gangandi vegfarendur og vettvangur mannlífs fyrir ólíka viðburði. Verslunarrými mun fléttast í auknu mæli við götulíf og veitingastarfsemi. Hlemmtorg verður þungamiðja og mörk miðborgar til norðurs og austur.

Aðgengi vistvænna ferðamáta og skilyrði til fjölbreytts mannlífs verða bætt verulega en nefna má að bílastæði við götukanta og í bílastæðahúsum í innan við fimm mínútna göngufjarlægð (400 m) frá Hlemmi eru alls um 3.150 talsins.

Vænt viðmót fyrir allskonar

Endurhönnun Hlemmtorgs tekur mið af vænu viðmóti fyrir alls konar félagslegar athafnir, afþreyingu og þjónustu, samanber forsendur og stefnumótun gildandi aðalskipulags fyrir mannlífs- og menningarmiðborgina. Torgið getur einnig orðið staður eða hluti af vettvangi fyrir ýmiskonar hátíðir eins og menningarnótt og barnamenningarhátíð.

Meginmarkmið með nýju deiliskipulagi og með forhönnun svæðisins miðar að því að auka aðdráttarafl Hlemms sem staðar sem fólk sækist eftir að fara á, að skapa gott og vistvænt umhverfi og til að svæðið verði kjörstaður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Hlemmur verði góður staður fyrir fólk og viðburði, eftirsóttur bíllaus staður, grænn og lifandi en einnig byrjunarreitur fyrir þau sem ætla í bæinn. Mathöllin á Hlemmi er sá segull sem þarf til að gera svæðið að því sem vænst er.

Miðborgartorg á mannlegum skala

Hlemmur er samkomustaður Reykvíkinga og allra landsmanna, miðborgartorg á mannlegum skala, svæði fyrir margvíslegar uppákomur og leik í öruggu umhverfi. Hlemmur mun áfram koma til með að gegna mikilvægu hlutverki fyrir mannlíf og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og fær von bráðar nýtt og litríkt útlit, ólíkt öðrum torgum í miðborginni og festir hlutverk sitt í sessi sem staður fólksins.

Tillögur landslags- og borgarhönnunarstofanna Mandaworks og DLD voru notaðar við þróunarvinnu nýs Hlemmstorgs fyrir endurhönnun svæðisins og Yrki sá um útfærslu deiliskipulags og skilmálagerðar.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á grundvelli nýs deiliskipulags muni hefjast á þessu ári. Að loknum framkvæmdum, sem unnar verða í áföngum, verður Hlemmur glæsilegur miðpunktur í austurhluta miðborgarinnar.

Tengill:

Hlemmur spurt og svarað

Kynningarfundur í janúar: