Reykjavíkurborg veitir heimildir til greiðsludreifingar fasteignagjalda af atvinnuhúsnæði vegna kórónuveirufaraldursins.
Borgarráð hefur samþykkt viðauka við innheimtureglur Reykjavíkurborgar vegna greiðsludreifingar á fasteignagjöldum af atvinnuhúsnæði.
Lögveð fasteignagjalda af atvinnuhúsnæði hefur verið lengt úr tveimur árum í fjögur ár vegna gjalda á árunum 2020-2022. Viðauki 1 við innheimtureglur Reykjavíkurborgar veitir heimild til gerð greiðsluáætlana vegna þessara gjalda og lækkun dráttarvaxta sé staðið við greiðsluáætlun. Skilyrði fyrir þessu er að gjaldandi eigi við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna kórónuveirufaraldursins eða gjaldendur sem leigja húsnæði til rekstraraðila sem sömu skilyrði eiga við um.
Heimilt verður að gera greiðsluáætlanir, til allt að 24 mánaða, allt eftir því hversu fljótt samningur er gerður eftir að gjalddagar ársins hafa fallið í vanskil, vegna fasteignaskatta sem lagðir eru á skv. c-lið, atvinnuhúsnæði, á árunum 2020-2022. Gert er ráð fyrir reglulegum greiðslum á tíma greiðsluáætlunar. Heimilt er að semja um jafnar eða breytilegar greiðslur á mánuði á tíma greiðsluáætlunar, þó þannig að skýr greiðsluvilji gjaldanda komi fram.
- Gildistími greiðsluáætlunar vegna fasteignaskatta ársins 2020 getur að hámarki verið út mars 2023. - Gildistími greiðsluáætlunar vegna fasteignaskatta ársins 2021 getur að hámarki verið út mars 2024. - Gildistími greiðsluáætlunar vegna fasteignaskatta ársins 2022 getur að hámarki verið út mars 2025.
Sjái gjaldandi fram á að geta ekki staðið við einstaka greiðslur í greiðsluáætlun skal hann hafa samband við innheimtuaðila til að uppfæra greiðsluáætlunina. Dráttarvextir falla á allar kröfur í greiðsluáætlun en standi gjaldandi við greiðsluáætlun veitir Reykjavíkurborg 40% afslátt af greiddum dráttarvöxtum í lok greiðsluáætlunar. Skilyrði fyrir gerð greiðsluáætlunar vegna fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði, vegna áranna 2020-2022, er að tekjur gjaldanda hafi verið að minnsta kosti 40% lægri en meðaltekjur hans á árinu 2019 og að tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.
Gjaldandi skal leggja fram vottorð frá Skattinum þar sem fram kemur útreikningur á tekjufalli í samræmi við lög um tekjufallstyrki nr. 118/2020 eða önnur lögformleg gögn sem sýna fram á a.m.k. 40% tekjufall.
Leigi gjaldandi húsnæði til rekstraraðila sem hefur orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins þarf hann að leggja fram vottorð leigjandans þar sem fram kemur útreikningur á tekjufalli í samræmi við lög um tekjufallstyrk nr. 118/2020 eða önnur lögformleg gögn sem sýna fram á a.m.k. 40% tekjufall, auk afrits af þinglýstum leigusamningi.
Gjaldandi má ekki vera í vanskilum með fasteignaskatta sem komnir voru á eindaga fyrir lok árs 2019. Sækja skal um gerð greiðsluáætlunar á erindisgátt fasteignagjalda á heimasíðu Reykjavíkurborgar: https://reykjavik.is/thjonusta/fasteignagjold
Gjaldheimtan, sem sér um löginnheimtu fyrir Reykjavíkurborg, mun sjá um að gera greiðsluáætlanir standist umsækjandi þau skilyrði sem sett eru.
Sækja um greiðsludreifingu vegna fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði