Fyrsti áfangi hámarkshraðaáætlunar kemur til framkvæmda

Samgöngur Umhverfi

Ný hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur var samþykkt í vor og er fyrsti áfangi áætlunarinnar að koma til framkvæmda um þessar mundir. Verið er að endurmerkja og skipta út skiltum vegna lækkunar hraða á nokkrum götum í borginni. Merkingarnar taka gildi jafnóðum og þær koma upp.

Markmið hámarkshraðaáætlunarinnar er að stuðla að bættu umferðaröryggi í Reykjavík til að koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki í umferðinni. Nauðsynlegt er að draga úr umferðarhraða til að ná því.

Í þessum breytingum er lögð áhersla á götur við leiðir barna til og frá skóla eða frístundum sem og götur þar sem er mikill fjöldi gangandi vegfarenda. Íbúar hafa kallað eftir því að hámarkshraði verði lækkaður í þeirra nærumhverfi. Lækkun hraða bætir öryggi, hljóðvist og stuðlar að betri lífsgæðum fyrir íbúa.

Þessar götur verða með hámarkshraða 40 km/klst

  • Snorrabraut, milli Burknagötu og Grettisgötu.
  • Fjallkonuvegur, milli Gullinbrúar og Frostafoldar.
  • Fjallkonuvegur, milli Jöklafoldar og Hallsvegar.

Þessar götur verða með hámarkshraða 30 km/klst

  • Snorrabraut, milli Grettisgötu og Sæbrautar.
  • Borgartún, milli Snorrabrautar og Katrínartúns.
  • Nóatún, milli Laugavegs og Borgartúns.
  • Engjateigur.
  • Langholtsvegur, milli Skeiðarvogs og Sæbrautar.
  • Álfheimar.
  • Holtavegur, milli Langholtsvegs og Sæbrautar.
  • Stjörnugróf.
  • Seljaskógar, milli Grófarsels og Hjallasels.
  • Bæjarbraut.
  • Rofabær, milli Hraunbæjar og þrengingar austan Brúaráss.
  • Bjallavað.
  • Ferjuvað.
  • Völundarhús, milli Suðurhúsa og Gagnvegs til vesturs.
  • Langirimi, milli Hallsvegar og Flétturima.
  • Mosavegur/Spöngin, milli Móavegar og Skólavegar.
  • Vegur norðan við Rauðavatn ásamt vegtengingu við Hádegismóa, merkt II gata
  • og Aðalbraut.

Skoða göturnar á korti í góðri upplausn.

Spurt og svarað um hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur

a) Er um fjölgun hraðaþrepa í hámarkshraða að ræða sem eykur flækjustig og missir þannig marks?

Nei. Ekki er um fjölgun hraðaþrepa að ræða. Leyfilegur hámarkshraði er skilgreindur í umferðarlögum. Innan borgarmarkanna er nú þegar notast við þann hámarkshraða sem hámarkshraðaáætlunin gerir ráð fyrir að notaður verði.

b) Mun lækkun hámarkshraða minnka umferðarflæði og skapa tafir á stofnbrautum?

Nei. Hámarks umferðarrýmd gatnakerfisins og tafir í kringum háannatíma ráðast oftast af afkastagetu gatnamóta, ljósastýringum og annarri umferð. Það er ekki gert ráð fyrir að lækkun hámarkshraða muni hafa mikil áhrif á tafir á háannatíma þar sem á þeim tímapunktum þá hafa umferðarljós og önnur umferð meiri áhrif á raunhraðann en leyfður hámarkshraði.

c) Verða auknar tafir á stofnbrautum sem leiða til þess að umferð færist yfir á íbúagötur?

Nei. Utan háannatíma, þá verður eins og nú greiðasta leiðin fyrir ökumenn að notast við stofnbrautirnar. Því er ekki taldar líkur á að þessi breyting á hámarkshraða muni stuðla að tilfærslu umferðar frá stofnbrautum á íbúagötur.

d) Leiðir breytingin til aukinnar mengunar, útblásturs, hávaða?

Nei. Áhrif umferðar á loftmengun er háð mörgum þáttum, meðal annars vali á fararmáta, akstursstíl, hraða, hröðun og hægingu/stoppum, samsetningu umferðar og aðstæðum á hverjum stað (VV & SKL, 2008). Niðurstöður erlendra rannsókna benda til þess að það sé líklegra að lækkun hámarkshraða hafi jákvæð áhrif á loftmengun en neikvæð. Umferðarhávaði er háður bæði umferðarmagni og umferðarhraða. Rannsóknir sýna að umferðarhávaði frá bílaumferð minnkar með lægri hraða að u.þ.b. 30-40 km/klst. Þess má einnig geta að lægri hraði gerir það meira aðlaðandi að velja aðra fararmáta sem minnka neikvæð umhverfisáhrif vegna umferðar vélknúinna ökutækja.

Tenglar