Félagsmiðstöðvavika 15. – 19. nóvember

Skóli og frístund

""

Félagsmiðstöðvavikan verður haldin hátíðleg í Reykjavík 15. – 19. nóvember. Markmið vikunnar er að vekja athygli á því uppbyggilega frístundastarfi sem fer fram í félagsmiðstöðvunum fyrir börn og unglinga og kynna það fyrir foreldrum og öðrum áhugasömum.

Vegna hertra samkomutakmarkana er ljóst að ekki verður hægt að bjóða alla velkomna í félagsmiðstöðina eins og undanfarin ár en þess í stað munu félagsmiðstöðvar í Reykjavík nýta vikuna til að vekja athygli á starfinu. Starfsfólk félagsmiðstöðva mun leita fjölbreyttra og skapandi leiða í samráði við börn og unglinga til að koma upplýsingum um starfið á framfæri og benda á það mikilvæga uppeldis- og forvarnarstarf sem unnið er í félagsmiðstöðvum.

Starfsfólk félagsmiðstöðva í borginni sendir foreldrum nánari upplýsingar með tölvupósti og kynnir jafnframt starfið á heimasíðum og samfélagsmiðlum viðkomandi félagsmiðstöðvar. Yfirlit yfir félagsmiðstöðvar í Reykjavík er að finna á vef Reykjavíkurborgar.

Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan er haldin á öllu landinu fyrir tilstilli SAMFÉS, samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, en sérstakur félagsmiðstöðvadagur hefur verið haldinn hátíðlegur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2005. Sjá kynningarmyndband SAMFÉS um félagsmiðstöðvarnar.