Undanfarna mánuði hefur farið fram víðtækt samráð um mótun velferðarstefnu Reykjavíkurborgar. Í ferlinu hefur markvisst verið kallað eftir og hlýtt á fjölbreyttar raddir borgarbúa, samstarfsaðila, hagsmunaaðila, starfsfólks og kjörinna fulltrúa.
Stefnan hefur verið mótuð út frá þessu samtali og er hún hugsuð sem vegvísir fyrir borgarbúa og um leið fyrir starfsfólk sem veitir þjónustuna. Markmið hennar er að auka lífsgæði fólks og tryggja að Reykjavík sé fyrir okkur öll.
Nú liggja fyrstu drög að stefnunni fyrir. Allir borgarbúar eru hvattir til að kynna sér stefnudrögin og senda athugasemdir og umsagnir í gegnum Betri Reykjavík en þar eru upplýsingar á íslensku, ensku og pólsku.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, er ánægð með það víðtæka samráð sem hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum vegna stefnunnar. „Ég vil þakka þeim hundruðum borgarbúa, samstarfsaðila og starfsmanna sem tekið hafa þátt í vinnu við stefnuna kærlega fyrir. Ég vona að sem allra flestir borgarbúar skoði stefnudrögin og geri athugasemd við þau,“ segir hún.
Á velferðarsviði starfa yfir þrjú þúsund manns á rúmlega 100 starfsstöðum víðsvegar um borgina. Að sögn Regínu Ásvaldsdóttir, sviðsstjóra velferðarsviðs, mun víðtæk vinna við stefnuna halda áfram á næstu vikum þar sem hagsmunaaðilar og starfsfólk Reykjavíkurborgar fá enn frekara tækifæri til að setja mark sitt á stefnuna.
Frestur til að skila inn umsögnum á Betri Reykjavík rennur út föstudaginn 16. apríl.
Hér geturðu skoðað drög að velferðarstefnunni.
Hér geturðu sett inn umsögn á Betri Reykjavík.