Ný velferðarstefna verður til umræðu á velferðarkaffi næsta föstudagsmorgun en svo nefnast opnir fundir velferðarráðs sem haldnir eru með reglubundnum hætti og fjalla um velferðarmál.
Undanfarna mánuði hefur ný velferðarstefna verið í mótun. Hún er hugsuð sem vegvísir fyrir borgarbúa og starfsfólk sem veitir þjónustuna. Markmið hennar er að auka lífsgæði fólks og tryggja að Reykjavík sé fyrir okkur öll. Það er velferðarsvið Reykjavíkurborgar sem sér um framkvæmd velferðarþjónustu en hún er meðal annars veitt með viðtölum, félagslegri ráðgjöf, á félagsmiðstöðvum, í skammtímadvölum, íbúðakjörnum, neyðarskýlum og heimahúsum.
Velferðarkaffið á föstudag er kjörið tækifæri til að fá innsýn í þá vinnu sem á undan er gengin og helstu þætti nýrrar velferðarstefnu. Stór hópur fólks komið að mótun stefnunnar með einum eða öðrum hætti, þar á meðal starfsfólk velferðarsviðs, notendur velferðarþjónustu, kjörnir fulltrúar og fulltrúar hagsmunahópa. Kjarninn í stefnunni er að engir tveir einstaklingar eru eins en það á að vera grundvallarnálgun í velferðarþjónustu borgarinnar.
Dagskrá:
1. Velferðarstefna og helstu þættir hennar
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs
2. Stefnuáherslur og mikilvægi þeirra
Ásta Þórdís Skjalddal, samhæfingarstjóri Pepp á Íslandi
Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs
Elín Oddný Sigurðardóttir, borgarfulltrúi
Bergþór Heimir Þórðarson, varaformaður ÖBÍ
Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi
Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða
3. Samráðsgátt og umsagnir
Dís Sigurgeirsdóttir, skrifstofustjóri á velferðarsviði
4. Umræður
Hægt er að skoða drögin að velferðarstefnunni í heild sinni hér.
Gera má athugasemd við velferðarstefnuna á Betri Reykjavík.
Viðburðurinn hefst klukkan 8.45 og lýkur klukkan 10. Honum verður streymt beint á Facebook-síðu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Hægt verður að senda inn spurningar í athugasemdum við streymið.