Allir íbúar smáhúsa fá þjónustu og stuðning daglega

Velferð Skipulagsmál

""

Fimm smáhús voru tekin í notkun á Gufunesi í desember. Kostnaður við hvert þeirra var 33,4 milljónir króna. Í heild verða smáhúsin 20, staðsett á víð og dreif um höfuðborgarsvæðið. Ljóst er að kostnaður við uppsetningu nýrra húsa verður lægri en í Gufunesi. Áður en einstaklingur fær úthlutað nýju heimili í smáhúsi gerir hann samning við Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar, sem er þverfaglegur hópur sérfræðinga á velferðarsviði sem veitir einstaklingsbundna aðstoð, stuðning og ráðgjöf. Allra íbúa er vitjað tvisvar til þrisvar á dag.

Þjónustan sem veitt er í smáhúsum byggir á hugmyndafræði Húsnæði fyrst (Housing First). Hún snýst um að allt fólk eigi rétt á húsnæði og geti haldið því með einstaklingsbundinni þjónustu undir formerkjum skaðaminnkunar. Um er að ræða húsnæði með stuðningi en ekki sólarhringsþjónustu.

Húsnæði er ein af grunnþörfum hvers einstaklings. Smáhús eru mikilvægur þáttur í að framfylgja mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og stefnu í málefnum heimilislauss fólks með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Nokkur umræða hefur átt sér stað að undanförnu um þjónustu við íbúa smáhúsa og því vill velferðarsvið árétta eftirfarandi atriði: 

  • Allir íbúar smáhúsa í Gufunesi eru með þjónustusamning við Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar (VoR-teymið). Teymið fer á vettvang tvisvar til þrisvar á dag, allt árið um kring. Enginn íbúanna er því án stuðnings. 
  • VoR-teymið veitir einnig íbúum smáhýsa að Fiskislóð stuðning tvisvar til þrisvar á dag. 
  • Verkefnum VoR-teymisins hefur fjölgað með tilkomu nýrra smáhúsa og stuðningur þess við íbúa aukist. Það er ekki hlutverk teymisins að hafa eftirlit með íbúum smáhúsa eða gestum þeirra, heldur að sjá til þess að þeir hafi þak yfir höfuðið og fái þá þjónustu sem þeir þurfa og fellur undir skyldur sveitarfélagsins. 

Kostnaður verður lægri við næstu hús

Kostnaður vegna húsanna við Gufunesveg er 33,4 milljónir króna á hvert hús. Stærsti hluti þeirrar upphæðar er vegna jarðvinnu og lagnavinnu, eða 11,8 milljónir króna. Ýmsar áskoranir á lóðinni voru ófyrirséðar þegar farið var af stað með verkefnið. Kostnaður vegna byggingar og uppsetningar hvers húss nam 10,8 milljónum. Smelltu hér til að lesa svar umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn um kostnaðinn í innkaupa- og framkvæmdaráði. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um kostnað við uppbyggingu húsanna. 

Mjög mismunandi aðstæður eru á þeim lóðum sem þegar hafa verið fengnar til uppsetingar smáhúsa en í öllum tilvikum er horft til þess að lágmarka kostnað við uppsetningu húsanna á þeim. Af lóðunum er sú í Gufunesi mest krefjandi og er því ljóst að kostnaður við hvert hús á nýjum lóðum verður lægri, sé horft til fermetrakostnaðar.

Nýju húsin upphituð, vel við haldið og tilbúin til uppsetningar

Til viðbótar við þau fimm hús sem búið er að setja upp í Gufunesi eru fimmtán hús tilbúin til uppsetningar og eru þau geymd á geymslusvæði Reykjavíkurborgar í Skerjafirði. Fimm þeirra verða flutt á nýjar lóðir á næstu vikum, tvö að Skógarhlíð og þrjú að Kleppsmýrarvegi. Búið er að opna tilboð í jarðvegsframkvæmdir, gerð undirstaðna, lóðarfrágang, frágang lagna og raflagna ásamt smíði skyggna og tæknirýmis fyrir þau hús og var Bjössi ehf. með lægsta tilboð í það verk en það hljóðar upp á 54,5 milljónir króna m/vsk. 

Haldið hefur verið fram að húsin á geymslusvæðinu drabbist þar niður og því er áréttað að:  

  • húsin eru upphituð og hafa verið það frá því þau voru flutt á svæðið í mars 2020. 
  • starfsmaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar hefur stöðugt eftirlit með að upphitun sé virk. 
  • öryggisvarsla á geymslusvæðinu af viðurkenndum eftirlitsaðila.
  • húsin eru í geymslu því erfiðlega hefur gengið að festa lóðir fyrir þau. 

Smelltu hér til að lesa ýmsar fróðlegar upplýsingar um uppbyggingu smáhúsa í Reykjavík.

Smelltu hér til að lesa nýlega grein sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um smáhúsin og hugmyndafræðina að baki þeim. 

Fyrstu smáhúsin voru sett niður í desember 2020 og þjónustan þar er og verður í stöðugri þróun í samráði við íbúa. Að fá úthlutuðu smáhúsi getur verið fyrsta skref einstaklings með fjölþættan vanda í átt að betra lífi. Hann er ekki lengur heimilislaus sem er grundvallarbreyting í hans lífi en hefur samt sem áður greiðan aðgang að þjónustu og stuðningi VoR teymisins.