180 blómategundir í borginni í sumar

Umhverfi

""

Sumarblómin sem prýða borgina koma flest öll úr Ræktunarstöð Reykjavíkur þar sem Auður Jónsdóttir garðyrkjufræðingur ræður ríkjum en hún er yfirverkstjóri stöðvarinnar. Gulur er þemaliturinn í ár en 180 tegundir og yrki má finna í blómaflórunni í Reykjavíkurborg í sumar þegar öll litbrigði eru talin með.

Það færist yfir ró og vellíðan í heimsókn í Ræktunarstöðina í Fossvogi. Þarna er öllu sinnt af alúð, það er greinilegt hvert sem á er litið. Umhverfið er sérlega ræktarlegt. Starfsfólkið nýtur þess einnig að vinna í þessu fallega umhverfi þó dagarnir séu annasamir. Yfirverkstjórinn Auður gengur til dæmis 11-14 þúsund skref á hverjum degi í vinnunni.

Gulur til gamans

Einkennislitur ársins er gulur og var ákveðinn í september 2019. Starfsfólk Ræktunarstöðvarinnar prófar nýjar tegundur árið á eftir og ræktar í stöðinni. „Við höldum sumarblómafund fyrir bækistöðvarnar sem sjá um að planta blómunum og panta þau,“ segir Auður.

Þó gulur sé þemaliturinn í borginni þetta sumarið verður ekki allt gult alls staðar. „Guli liturinn verður aðeins meira áberandi en aðrir. Litaþemun síðustu ár hafa bara verið til gamans gerð,“ segir hún en upphafið var bleikt þema á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna árið 2015. Í fyrra var hvítt þema í borginni þegar 130.000 blóm voru gróðursett um alla borg og verður fjöldinn álíka í sumar.

Blómin gleðja

Það er skapandi starf að setja blómin saman í beð og ker svo þau njóti sín sem best. „Það er ekki sama hvernig litatónunum er raðað saman. Það er svo gaman þegar starfsfólkið fær að njóta sín í því að skapa,“ segir hún og útskýrir að eitt verkefni starfsfólks yfir vetrartímann sé að hanna beðin og velta fyrir sér pöntun næsta árs. „Þegar það er kannski rigning eða skafbylur og myrkur úti er hægt að sitja inni og hugsa um sumarblómin.“

Þurfum við ekki á sumarblómunum að halda eftir langan vetur og allt myrkið?

„Það er alltaf sagt – blómin gleðja. Þetta er ekki bara frasi. Okkur líður vel þegar við sjáum fallega liti og allur gróður veitir vellíðan,“ segir Auður.

Blómin úr Ræktunarstöðinni fara út um alla borg og sækja hverfabækistöðvarnar blómin þangað. Skipulagning þarf að vera góð svo afhending sumarblómanna gangi hnökralaust fyrir sig þegar bílarnir streyma inn í sumarbyrjun að sækja blómin. Auður heldur ítarlegt bókhald þannig starfið snýst líka um excelskjöl. „Vorið kemur alltaf allt í einu og þá þurfa öll blómin að fara út á sama tíma.“

Alltaf einhverjar tískuplöntur

Á listanum í Ræktunarstöðinni eru 226 tegundir og yrki þegar öll litbrigði eru talin með. Ekki eru allar tegundirnar pantaðar en það eru í kringum 180 tegundir og yrki sem fara út í borgina.

„Það er mikill fjölbreytileiki. Svo eru alltaf tískuplöntur,“ segir Auður.

Eru einhverjar núna?

„Við erum að vinna með nýtt yrki af morgunfrú, gula lágvaxna tegund sem við prófuðum í fyrra. Hún gæti orðið svolítið áberandi,“ segir hún og nefnir einnig stráhatt. „Það er hávaxin planta með stórum, gulum blómum. Það verður spennandi að sjá hvernig hún kemur út. Við erum líka að prófa okkur áfram í hinum ýmsu skrautgrösum sem eru alltaf skemmtileg með. Silkibygg hefur verið áberandi síðustu ár í bænum. Það hreyfist svo skemmtilega með vindinum.“

Meira skjól fyrir sumarblómin býður upp á leik

Hún játar því aðspurð að áhugi á garðrækt hafi aukist hjá almenningi síðustu ár. „Ég held að það sem við erum að upplifa hér í Reykjavík er hvað það er miklu minni vindur hjá okkur en áður. Allur gróðurinn og trén hafa svo mikil áhrif. Nú getum við prófað að rækta alls konar tegundir sem fyrir nokkrum árum þótti vonlaust að rækta hér. Það er komið meira skjól fyrir sumarblómin og við getum leikið okkur meira og það sést árangur.“

Af þessum 180 tegundum og yrkjum eru margar stjúpur en þarna eru líka ljónsmunnur, möggubrá, sólboði, steinselja, tóbakshorn, snædrífa, silfurkambur og flauelisblóm svo eitthvað sé nefnt.

„Hvað sumarblómin varðar þá erum við með plöntur sem blómstra snemma á vorin eins og stjúpur, fjólur og fagurfífil. Svo taka aðrar tegundir við. Þær eru kannski ekki í blóma á 17. júní en þær gleðja okkur allt í einu í lok júlí. Þetta tekur hvert við af öðru,“ segir Auður og má því sannarlega búast við blómlegri borg í sumar.

Fyrir áhugasama um blómafréttir má benda á að áður var búið að segja frá því að sumarblómin væru komin niður á Austurvelli.