130.000 sumarblóm ræktuð í borginni

Umhverfi

""

Reykjavíkurborg ræktar tæplega 130.000 sumarblóm í ræktunarstöð sinni til að gróðursetja um alla borg.  Aukning milli ára er töluverð en ræktaðar hafa verið um 20.000 fleiri plöntur en í fyrra. Einkennislitur sumarsins er hvítur.

Blómin fara út um alla Reykjavíkurborg. Starfsfólk borgarinnar í hverfabækistöðunum þremur, Árbæ, Laugardal og Fiskislóð, hannar skreytingarnar á sínum svæðum. Hvíta þemað er gegnumgangandi en það er mest áberandi í miðborginni.

Sumarblómafundur í september

Það þarf að skipuleggja sig langt fram í tímann og er þegar búið að ákveða þema næsta árs. Það er nauðsynlegt til þess að hægt sé að taka inn nýjar plöntur og sjá hvernig þær reynast. Einnig eru teknir græðlingar af sumum plöntum og því er ekki ráð nema í tíma sé tekið í þessum málum.

Auður Jónsdóttir garðyrkjufræðingur er yfirverkstjóri á Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar í Fossvogi. Hún heldur sumarblómafund í byrjun september á hverju ári. Þá tekur hún á móti pöntunum frá bækistöðvunum en það er heilmikil vinna bara að reikna út hversu mörg fræ þarf út frá spírunarhlutfalli tegundarinnar.

Ekki hægt nema með frábæru starfsfólki

Hún segir að sem betur fer séu þau komin með sáningavél og með henni er sáð fyrir smáplöntunum. „Við erum að fara inn í nútímann. Hún hefur hjálpað mikið en þetta hefst ekki nema með frábæru starfsfólki. Það er ekki gefið að hafa svona flott starfsfólk sem leggur allan sinn metnað í þetta,“ segir hún þakklát.

Sjö starfsmenn eru í heilsársstöðu í Ræktunarstöðinni og sumarblómunum var öllum „priklað“, eða dreifplantað í höndunum. Það eru ófá handtökin í því en þetta eru um 18.500 plöntur á mann!

Nú er sumarstarfsfólk einnig komið til starfa en að jafnaði bætast við um níu manns á sumrin, enda veitir ekki af því en Ræktunarstöðin er á um níu hekturum lands.

Einstakur ilmur er í gróðurhúsunum og játar Auður því að þarna sé gott að vera. Það sé komin vorstemning snemma hjá þeim þarna inni, um leið og sól fari að hækka á lofti í mars. „Vorið er komið miklu fyrr hérna hjá okkur,“ segir hún.

Rækta blóm fyrir flugeldagarð

Auður og starfsfólk hennar hafa líka verið að rækta blómin sem verða í flugeldagarðinum í Hallgargarðinum, meðal annars sólblóm og dalíur. Garðurinn er hluti af dagskrá Listahátíðar Reykjavíkur í ár og verður hann formlega opnaður 17. júní.