Stafræn heimsókn í þína félagsmiðstöð

Skóli og frístund

""

Miðvikudaginn 18. nóvember verður hinn árlegi félagsmiðstöðvadagur haldinn hátíðlegur. Markmið dagsins er að vekja athygli á því uppbyggilega frístundastarfi sem fer fram í félagsmiðstöðvum borgarinnar fyrir börn og unglinga og bjóða áhugasömum að kynnast því.

Að þessu sinni munu allar félagsmiðstöðvar í Reykjavík bjóða upp á stafræna dagskrá í tilefni dagsins og verður hægt að kynna sér starfsemi þeirra og taka þátt í sérstökum uppákomum sem tileinkaðar eru deginum. Vegna aðstæðna í samfélaginu hafa félagsmiðstöðvar þurft að umbreyta sínu starfi, leita nýrra leiða til að vera til staðar fyrir börn og unglinga og gefa þeim kost á fjölbreyttu frístundastarfi. Starfsfólk félagsmiðstöðva hefur jákvæðni og hugmyndaauðgi að leiðarljósi í sínu starfi nú sem endranær og hvetur áhugasama til að taka þátt í deginum, þó að hann sé haldinn með óhefðbundnu sniði. 

Félagsmiðstöðvar munu senda foreldrum nánari upplýsingar um dagskrána með tölvupósti og jafnframt kynna hana á heimasíðum og samfélagsmiðlum viðkomandi félagsmiðstöðvar. Yfirlit yfir félagsmiðstöðvar í Reykjavík er að finna á heimasíðu skóla- og frístundasviðs.

Félagsmiðstöðvadagurinn er haldinn á öllu landinu fyrir tilstilli SAMFÉS, samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, en dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2005.