Losun dregist saman

Stjórnsýsla Fjármál

""

Grænt bókhald fyrir rekstur Reykjavíkurborgar sýnir að á milli áranna 2015-2019 hefur losun vegna notkunar jarðefnaeldsneytis dregist saman um 33 tonn CO2 ígilda, en 577 tonn ef einnig er horft til losunar vegna metans.

Losun vegna raforku hefur dregist saman um 82 tonn en í þessu tilfelli er miðað er við 2016-2019 vegna sölu upprunaábyrgða árið 2015. Losun vegna úrgangs hefur aukist um 387 tonn. Nettó aukning vegna þessara þriggja þátta, jarðfnaeldsneytis, raforku og úrgangs, er um 272 tonn, en nettó samdráttur er 272 tonn ef horft er til losunar vegna metans. Bókhaldið er birt með fyrirvara og einungis fyrir þá þætti sem liggja fyrir í apríl 2020.

Lagt fram með fjárhagsuppgjöri

Græna bókhaldið var kynnt í borgarráði á fimmtudag samhliða gögnum með ársreikningi fyrir árið 2019 sem verður til umfjöllunar í borgarstjórn í byrjun maí. Þetta er í fyrsta sinn sem græna bókhaldið er lagt fram á sama tíma og fjárhagsuppgjörið en framlagningin leggur grunn að umhverfisskýrslu Reykjavíkurborgar sem hluta af heildstæðum ársreikningi.

Grænt bókhald fyrir reksturinn í heild sinni hefur verið birt frá 2015, en þá undirritaði Reykjavíkurborg loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og skuldbatt sig þar með til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, draga úr myndun úrgangs og mæla og birta árangurinn.

Kolefnishlutleysi 2040

Töluleg markmið í loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar er kolefnishlutleysi 2040 og að bílafloti í rekstri borgarinnar sé laus við losun gróðurhúsalofttegunda 2025. Markmið um rafmagnsnotkun og úrgang frá rekstri Reykjavíkurborgar eru almenn og ekki töluleg. Er því gert ráð fyrir að rafmagnsnotkun og úrgangsmagn verði óbreytt. Til að uppfylla markmið um kolefnishlutleysi með markvissum hætti er mikilvægt að ná utan um bindingu kolefnis.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.