Töluvert hefur borið á því eftir páskahátíðina að úrgangur hafi verið skilinn eftir við grenndarstöðvar í borginni, sem ekki á þar heima. Stöðvarnar eru ekki ætlaðar fyrir annan úrgang en endurvinnsluefni sem sett er í gámana. Mikilvægt er að íbúar virði þetta og fari með úrganginn á endurvinnslustöð Sorpu.
Greinilegt er að fólk hefur notað heimaveruna um páskana til að taka til en mikilvægt er að koma úrgangnum á réttan stað. Dæmi um úrgang sem á ekki heima á grenndarstöðvum eru dýnur, ónýt húsgögn og „bland í poka“ en ekki má skilja eftir poka á stöðvunum heldur á að koma öllu efni fyrir í gámunum sjálfum.
Endurvinnsluefni sem safnað er á grenndarstöðvum er pappír, plast og gler auk þess sem einnig stendur yfir tilraunaverkefni um sérsöfnun á málmi á grenndarstöðvum í Árbæ.
Sorpa lengir afgreiðslutíma
Reykjavíkurborg biðlar því til þeirra sem standa í tiltekt og þurfa að losa sig við hluti að skilja ekki draslið eftir við grenndarstöðvarnar heldur koma því á réttan stað. Góði hirðirinn hefur nú opnað aftur fyrir móttöku nytjahluta á öllum endurvinnslustöðvum Sorpu. Þess má geta að undanfarið hafa verið biðraðir við endurvinnslustöðvarnar. Þeir sem hafa tök á geta farið á tímum þar sem vænta má minni umferðar en búast má við töfum sem stendur.
Sorpa hefur lengt afgreiðslutíma sinn um klukkustund á dag, hálftíma í hvorn enda, til að bregðast við þessu ástandi. Almennur afgreiðslutími endurvinnslustöðva er nú frá 11.30 – 19 til að koma betur til móts við þarfir viðskiptavina. Nánari upplýsingar um þetta og fleira er snertir þjónustuna er að finna á vef Sorpu.
Tafir á eftirliti og hreinsun vegna COVID-19
Venjulega fer fram eftirlit og hreinsun með grenndarstöðvum tvisvar sinnum í viku. Vegna COVID 19 eru færri starfsmenn Reykjavíkurborgar að sinna þessari þjónustu og komast þeir því hægar yfir auk þess sem þetta mikla magn tefur fyrir þjónustunni. Slæm umgengni er enn fremur lýti fyrir stöðina og nærumhverfið.
Grenndarstöðvarnar eru ætlaðar fyrir heimili en ekki fyrirtæki. Alls eru um sextíu grenndarstöðvar í Reykjavík. Um 85% íbúa hafa aðgengi að grenndarstöðvum í 500 metra fjarlægð frá heimili sínu eða minna. Á grenndarstöðvum stendur Bandalag Íslenskra Skáta (BÍS) fyrir söfnun á skilagjaldsskyldum umbúðum auk þess sem Rauði krossinn er með söfnunargáma fyrir fatnað, skó og aðra vefnaðarvöru (textíl). Mikilvægt er að skilja ekki poka eftir fyrir utan söfnunargáma. Rauði krossinn hefur hvatt fólk til að bíða með að fara með föt í gáma þegar þeir eru fullir.