Tilraunaverkefni um sérsöfnun málma er hafið á grenndarstöðvum í Árbæ á vegum Reykjavíkurborgar. Gámar hafa verið settir upp á öllum sjö grenndarstöðvunum í póstnúmeri 110.
Tilgangurinn að auka endurvinnsluhlutfallið
Markmiðið með söfnuninni er að auka endurvinnsluhlutfall á málmi til að mæta markmiðum og kröfum um aukna endurvinnslu og bæta aðgengi íbúa að sérsöfnun. Viðtökurnar verða síðan kannaðar og hvernig hefur safnast. Þær upplýsingar verða notaðar til ákvarðanatöku um frekari söfnun í borginni.
Málmar eru verðmætur úrgangsflokkur og sömuleiðis eru þeir auðveldir í endurvinnslu. Mikill orkusparnaður felst í endurvinnslu málma.
Niðursuðudósir og krukkulok
Málmar eru töluvert notaðir í matvælaumbúðir og fellur því þó nokkuð til af málmum á heimilum. Má þar til dæmis nefna niðursuðudósir, krukkulok, sprittkertakoppa og tóm rjómasprautuhylki.
Tölur um magn heimilisúrgangs og greiningar SORPU á innihaldi grátunnunnar benda til þess að hver íbúi á höfuðborgarsvæðinu hendi fjórum til fimm kílóum af málmi á hverju ári. Gætu því allt að 45 tonn af málmi leynst í sorpinu í Árbæ á ári hverju.
Hægt er að skoða staðsetningar málmgámanna á vef Sorpu.