Loksins veður til að sópa götur og stíga

Samgöngur Framkvæmdir

""

„Í dag eru allar tiltækar vélar úti við sópun gatna og stíga,“ segir Björn Ingvarsson hjá þjónustumiðstöð borgarlandsins.  „Veðrið hefur ekki verið hagstætt hreinsun gatna undanfarið. Snjór var yfir öllu þegar við ætluðum að byrja í liðinni viku, en við nýttum þó dagana þegar þiðnaði á miðvikudag,“ segir hann.

Fjölförnustu leiðirnar eru hreinsaðar fyrst en það eru allar stofnbrautir og tengigötur, sem og helstu göngu- og hjólastígar. Þessar meginleiðir liggja þvert um borgarlandið og njóta því forgangs, en að lokinni hreinsun þeirra verður farið hverfaskipt í húsagötur og þær sópaðar og þvegnar.

Þegar farið verður í húsagötur verður það tilkynnt sérstaklega með dreifibréfi til íbúa og skilti sett í þær götur sem á að þrífa. Þegar þar að kemur verða bíleigendur beðnir um að færa bíla sína úr stæðum við götuna. Það gildir þó ekki um stæði inn á lóðum því þrif þeirra eru í höndum húseigenda.

Verkáætlun vorhreinsunar er hér fyrir neðan. Breytilegt er frá ári til árs í hvaða hverfi er farið fyrst. Á vef Reykjavíkurborgar – reykjavik.is/hreinsun – má sjá nánari upplýsingar um hreinsun gatna og stíga.