Tímabundið göngusvæði sumarsins 2019 var samþykkt í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar miðvikudaginn 3. apríl. Útfærslan verður með svipuðu sniði og undanfarin ár á meðan unnið er að útfærslu á varanlegum göngusvæði.
Opnað verður fyrir göngugötur í sumar sem hér segir á tímabilinu frá 1. maí til 1. október 2019.
- Laugavegur og Bankastræti frá Klapparstíg að Þingholtsstræti.
- Skólavörðustígur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar.
- Pósthússtræti milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis
- Austurstræti ásamt Veltusundi og Vallarstræti.
Göturnar verða aðeins opnar fyrir vöruafgreiðslu kl. 07.00 til 11.00 virka daga og kl. 08.00 til 11.00 á laugardögum en annars lokaðar fyrir allri almennri umferð á tímabilinu.
Við göngusvæðið eru bílahús, bæði Bergstaðir og Traðarkot – alls 328 stæði. Einnig eru bílahús í Kolaportinu og Hafnartorgi – alls 1266 stæði. Á svæðinu eru 21 bílastæði í götu í dag.
Með þessu móti má skapa betra verslunarumhverfi og koma til móts við nýjar áskoranir í verslun þar sem upplifun og þjónusta eru stór þáttur. Gangandi vegfarendur fá betri hljóðvist á öllu svæðinu, minni mengun og aðgengi fyrir alla er betrumbætt. Þá verður aðstaða til vörulosunar bætt.
Undirbúningur og hönnun
Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs vinnur áfram að forhönnun og undirbúningi deiliskipulagsbreytingu í áföngum, í samráði við hagsmunaaðila. Það er í samræmi við samþykkt borgarstjórnar þann 4. september 2018 um göngugötur allt árið ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur.
Breytingin verður áfangaskipt og í fyrsta áfanga þessa verkefnis er unnið að forhönnun göngusvæða og hún verður lögð fyrir skipulags og samgönguráð haustið 2019. Forhönnun felur í sér útfærslur á hinum ýmsu lausnum til að bæta götuna og umhverfið. Má þar nefna aðgangsstýringar, eitt yfirborð, bætt aðgengi, leiðilínur og aðgengi inn í verslanir, dvalarsvæði og götugögn, lýsing og fjölgun stæða fyrir hreyfihamlað fólk.
Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður sem kynnti á málþinginu Léttum á umferðinni hugmyndafræðina á bak við göngugötur segir að markmiðið með útfærslu og endurhönnun göngusvæða sé að auka öryggi og vellíðun gangandi vegfarenda. “Göturnar fá nýja og aðlaðandi ásýnd með þessari endurhönnun þar sem gert er ráð fyrir gróðri, dvalarsvæðum, lýsingu og betrumbættu yfirborði,” segir Edda.
Sautján þúsund ganga eða hjóla Laugaveg á hverjum degi
Reglubundin talning var gerð sumarið 2018 á bæði gangandi og hjólandi umferð á göngugötusvæðinu á Laugarvegi sem kom í ljós að um sautján þúsund ganga eða hjóla Laugaveg á hverjum degi. Ný könnun verður gerð á þessu ári.
Reykjavíkurborg hefur sinnt samráði vel í vetur og var með opið hús í Ráðhúsi Reykjavíkur vikuna 28. janúar -3. Febrúar. Sérstakir fundir voru haldnir þann 28.01.2019 með verslunareigendum, ferðaþjónustu og vöruflutningaaðilum. Þann 29.01.2019 var fundað með íbúum, fasteignaeigendum, fólki með fötlun, Öryrkjabandalagi Íslands, Veitum, Miðborginni okkar og Miðbæjarfélaginu.
Tengt efni
Viðhorf íbúa til göngugatna - könnun Maskínu ehf. í júlí 2017
Viðhorfskönnun rekstraraðila til göngugatna - könnun Gallup í nóv - des 2016
Flestir jákvæðir gagnvart göngugötum