Göngugötur eru vinsælar meðal borgarbúa og eru íbúar í Hlíðum og í miðborginni ánægðastir allra aðspurðra í nýrri könnun.
75% íbúa Reykjavíkur eru jákvæðir gagnvart göngugötum í miðborg Reykjavíkur samkvæmt viðhorfskönnun sem Maskína ehf. gerði fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur í júlí síðastliðnum. 12% aðspurðra eru neikvæðir. Er þetta svipað hlutfall og í könnunum frá árunum 2014 og 2015.
Íbúar í Hlíðum og miðborginni eru jákvæðastir en alls sögðust 88% íbúa í Hlíðum vera jákvæðir og 83% íbúa miðborgarinnar. Minnst ánægja mældist í Efra Breiðholti þar sem 52% sögðust jákvæð gagnvart göngugötum. Þeir sem koma reglulega á göngugötusvæðið (mánaðarlega eða oftar) eru mun jákvæðari en þeir sem koma sjaldnar og konur eru heldur jákvæðari en karlar.
47,3% aðspurðra töldu tímabil göngugatna, frá 1. maí til 1. október, væri hæfilegt en 20,8% vilja lengja tímabilið og 31,9% stytta það. Þar af vilja 11,7% hafa göngugötur allt árið um kring en 5,4% eru alfarið á móti göngugötum.
Göngugötur hafa jákvæð áhrif á mannlíf
Samkvæmt könnuninni telur yfirgnæfandi meirihluti, eða 80,3% aðspurðra, að göngugöturnar hafi jákvæð áhrif á mannlíf miðborgarinnar en 7,8% telja áhrifin neikvæð.
Könnunin var lögð fyrir Reykvíkinga í Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram á netinu dagana 12-24. júlí 2017. Svarendur voru af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára úr öllum póstnúmerum Reykjavíkurborgar. Svarendur voru 732 og voru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá.
Tengill
Könnun: Göngugötur/Maskína