Unnið er að viðgerð á stofnæð hitaveitu í Kópavogi sem bilaði sl. nótt með þeim afleiðingum að stór hluti bæjarins er heitavatnslaus.
Til að hægt sé að ljúka viðgerð hefur þurft að beita víðtækari lokunum og hefur verið lokað fyrir heitt vatn í Bæjarlind og Álalind auk þess sem búast má við þrýstingslækkun i öllu Lindarhverfi. Áður var búið að loka fyrir heita vatnið í öllu póstnúmeri 200 og í Smárahverfi í póstnúmeri 201.
Gert er ráð fyrir að viðgerð á lögninni standi fram á kvöld. Þar sem afleiðingar þessarar bilunar hafa áhrif á stórt svæði má búast við að nokkurn tíma taki að ná upp fullum þrýstingi í hitaveitunni í Kópavogi eftir að viðgerð lýkur.
Fólki er bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju. Í kuldatíð er ráðlegt að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að koma í veg fyrir að það kólni.
Starfsfólk Veitna biðst velvirðingar á óþægindum vegna þessa.