Sú nýjung að bjóða upp á hreyfanlega móttækistöð spilliefna og raftækja gafst vel í haust. Safnað var 1.638 kg sem tekið var á móti í 177 heimsóknum einstaklinga. Tveir þriðju hluti af því sem safnaðist voru spilliefni en einn þriðji raftæki.
Í aðgerðaráætlun í úrgangsmálum í Reykjavík 2016-2020 segir að gera eigi tilraun til að safna spilliefnum og raftækjum við heimili og þeim verði komið í viðeigandi meðhöndlun.
Spilliefni falla yfirleitt til vegna:
- Heimilishalds: þvotta- og hreinsiefni, spreybrúsar, stíflueyðar, sótthreinsar, lím, flúorperur, sparperur, sólarrafhlöður, húsgagnabón, hitamælar og annað sem inniheldur kvikasilfur o.fl.
- Tómstunda: Penslasápa, þynnar, framköllunarvökvar, viðarvarnir, herðar, lökk, sýrur, basar, terpentína og aðrir leysar o.fl.
- Garða og bílskúra: tilbúinn áburður, illgresis- og skordýraeyðar, rafgeymar, hreinsiefni, olíumálning, eldsneytisolía, smurolíur eða skyld olíuefni o.fl.
Í tilefni af þessu var Spillivagninn ræstur eða sérstök bifreið sem fór um hverfi borgarinnar og auðveldaði íbúum að losna við spilliefni og raftæki á öruggan hátt. Markmiðið er að minnka magn spilliefna, rafhlaðna og raftækja sem fer til urðunar. Fyrri áfangi söfnunar Spillivagnsins fór fram 9. nóvember til 6. desember síðastliðnum. Seinni áfangi söfnunarinnar verður frá 9. apríl til 9. maí 2019. Í framhaldinu verður metið hvort ástæða er til að bjóða áfram þjónustu Spillivagnsins.
Talið er að um 150 tonn af spilliefnum og raftækjum hafi farið í gráar tunnur í Reykjavík og verið urðað í Álfsnesi í fyrra. En langflestir Reykvíkingar skila spilliefnum á Endurvinnslustöðvar SORPU eða 78,3% samkvæmt viðhorfskönnun sem gerð var fyrir Reykjavíkurborg. Í henni kemur jafnframt fram að 3,7% Reykvíkinga viðurkenna að þeir henda spilliefnum í ruslið og tæpt prósent að þeir setji þau í vask, klósett eða annan stað.
Tæp 69% Reykvíkinga telja líklegt að þeir myndu flokka spilliefni frá blönduðum úrgangi og skila í sérstakan bíl á ákveðnum tíma í nágreni við sig ef sú þjónusta væri í boði. Af þeim sökum var Spillivagninn sendur í hverfi borgarinnar og var almenn ánægja íbúa með þessa nýju þjónustu.
Safnað var 1.638 kg sem tekið var á móti í 177 heimsóknum einstaklinga. Tveir þriðju hluti af því sem safnaðist voru spilliefni en einn þriðji raftæki. Ekki hefur verið skoðað hvort skil á spilliefnum og raftækjum hafi aukist á Endurvinnslustöðvar SORPU eða til annarra móttökuaðila samhliða tilkomu Spillivagnsins.
Spillivagninn verður aftur á ferðinni næsta vor. Áætlun Spillivagnsins í apríl og maí 2019:
- Laugardalur við Laugardalslaug - Þriðjudaginn 9. apríl
- Hlíðar við Kjarvalsstaði - Fimmtudaginn 11. apríl
- Bústaðir/Háaleiti við Austurver - Þriðjudaginn 16. apríl
- Miðborg við Sundhöll Reykjavíkur - Miðvikudaginn 17. apríl
- Breiðholt við Breiðholtslaug - Þriðjudaginn 23. apríl
- Vesturbær við Vesturbæjarlaug - Miðvikudaginn 24. apríl
- Grafarholt/Úlfarsárdalur við gr. Þjóðh.s. - Þriðjudaginn 30. apríl
- Kjalarnes við Vallargrund - Fimmtudaginn 2. maí
- Árbær við Árbæjarlaug - Þriðjudaginn 7. maí
- Grafarvogur við Spöngina - Fimmtudaginn 9. maí
Tengill