Spillivagninn | Reykjavíkurborg

Spillivagninn

Reykjavíkurborg vill auka flokkun og skil raftækja og spilliefna. Því hefur tilraunaverkefni um söfnun raftækja og spilliefna frá heimilum í Reykjavík verið hrundið af stað

Í tilefni átaksins hefur Reykjavíkurborg látið útbúa sérstaka bifreið sem heitir Spillivagninn. Hann mun fara um hverfi borgarinnar og auðvelda íbúum að losna við spilliefni og raftæki á öruggan hátt. 

 • Spillivagninn.
 • Spillivagninn fyrir framan Laugardalslaug 9. nóvember sl.
 • Svona lítur Spillivagninn út þegar hann hefur komið sér fyrr á áfangastað.

Markmið átaksins er að auka magn raftækjaúrgangs og spilliefna sem er meðhöndaður með réttum hætti. Átakið er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, SORPU bs. og Efnamóttökunnar og mun það standa frá nóvember 2018 og út maí 2019.

Raftækjunum og spillefnunum munu íbúar geta íbúar komið með í Spillivagninn á ákveðnum stöðum á ákveðnum tíma í borginni.  Hann mun fara um hverfi borgarinnar og auðvelda íbúum að losna við raftæki og spilliefni á öruggan hátt en hingað til hafa íbúar einungis getað skilað þessum úrgangsflokkum á Endurvinnslustöðvar SORPU bs.  

Lögum samkvæmt er bannað að henda spilliefnum í gráu tunnuna undir blandaðan úrgang. Raftæki sem hafa þjónað sínum tilgangi innihalda oft spilliefni, en einnig ýmis verðmæt efni og jafnvel nýtanlega hluti sem æskilegt er að endurvinna. Spillivagninn sparar íbúum sporinn og er hrein viðbót við þjónustu Endurvinnslustöðva SORPU bs. Talið er að um 150 tonnum af spilliefnum hafi verið urðað í Álfsnesi í fyrra.

50 milljarðar tonna af raftækjaúrgangi muni falla til á heimsvísu á árinu 2018 að því er talið er. Einungis 20% af honum er endurunninn sem þýðir að 40 milljarðar tonna fara annað hvort í urðun, brennslu eða eru meðhöndlað á óásættanlegan hátt. Við það tapast verðmæt og oft á tíðum sjaldgæf hráefni sem annars hefðu haldist inn í hringrásinni og nýst í framleiðslu nýrra raftækja eða annarra hluta. Auk þess eru ýmis hættuleg efni í raftækjum sem þarf að meðhöndla og farga á réttan hátt.

Markmið:

Auka magn raftækjaúrgangs og spilliefna sem er meðhöndaður með réttum hætti. Spillivagninn er hluti af innleiðingu Aðgerðaáætlunar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík sem samþykkt var í janúar 2016.

Áætlun Spillivagnsins fram að jólum

Árbær – þriðjudaginn 4. des. kl. 15–20 við Árbæjarlaug.

Breiðholt – þriðjudaginn 20. nóv. kl. 15–20 við Breiðholtslaug.

Bústaðir/Háleiti – miðvikudaginn 14. nóv. kl. 15–20 við Austurver.

Grafarholt/Úlfarsárdalur – miðvikudaginn 28. nóv. kl 15-20 við grenndarstöð við Þjóðhildarstíg.

Grafarvogur – fimmtudaginn 6. des. kl. 15–20 við Spöngina.

Hlíðar– þriðjudaginn 13. nóv. kl. 15–20 við Kjarvalsstaði.

Kjalarnes –fimmtudaginn 29. nóv. kl. 15–20 við grenndarstöð Vallargrund

Laugardalur – föstudaginn 9. nóv. kl. 15–20 við Laugardalslaug

Miðborg – fimmtudaginn 15. nóv. kl. 15–20 við Ráðhúsið

Vesturbær – mánudaginn 26. nóv. kl. 15–20 við Vesturbæjarlaug

Hverju tekur Spillivagninn við?

 • Raftækjum og spilliefnum.
 • Spilliefni eru t.d.:
  • Heimilishald: þvotta-  og hreinsiefni t.d. klór, rafhlöður, spreybrúsar, stíflueyðir, sótthreinsir, lím, flúorperur, sparperur, sólarrafhlöður, húsgagnabón, hitamælir og annað sem inniheldur kvikasilfur o.fl.
  • Tómstundir: Penslasápa, þynnir, framköllunarvökvi, viðarvörn, herðir, lakk, sýra, terpentína og önnur leysiefni.
  • Garðar og bílskúrar: tilbúinn áburður, illgresis- og skordýraeyðir,  rafgeymar, hreinsiefni, olíumálning, eldsneytisolía, smurolía eða skyld olíuefni o.fl.

Hverju tekur Spillivagninn m.a. ekki við?

 • Fyrirtækjaúrgangi.
 • Lyf en apótekin taka við þeim.
 • Íbúar með meira en 20 lítra eða 15 kg af slíkum af spilliefnum er beint á Endurvinnslustöðvar SORPU bs.
 • Raftæki þurfa að vera 50 cm á kant eða minna.
 • Skila þarf spilliefnum í tryggum og helst upprunalegum umbúðum.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

5 + 3 =