Ný skólphreinsistöð á Kjalarnesi var tekin í notkun í dag. Með því hefur allt þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu verið tengt við hreinsistöðvar og lokið því risavaxna uppbyggingarverkefni sem hófst árið 1995 í fráveitu höfuðborgarinnar og hreinsun strandlengjunnar.
Hönnun hreinsistöðvarinnar á Kjalarnesi hófst 2006 og var smíði hennar boðin út í áföngum 2007 og 2008. Á árunum 2008-2010 voru mannvirkin byggð, dælubrunnar settir niður og megnið af lagnavinnu klárað. Hrunið og slæm fjárhagsleg staða Orkuveitu Reykjavíkur á þessum tíma varð svo til þess að framkvæmdum var frestað. Þær hófust svo aftur með gerð sjólagnar á árinu 2015. Stöðin þjónar íbúum Grundahverfis þar sem búa á sjötta hundrað manns. Hreinsistöðin hreinsar öll gróf efni úr skólpinu auk þess að sía frá sand og fitu. Skólpinu er því næst dælt um kílómetra út í sjó.
Mikið af rusli fer í gegnum fráveitukerfið
Mannvirki sem þetta kostar mikinn pening, bæði í byggingu og rekstri. Því skiptir máli að umgangast það á rétt svo það komi að sem mestu gagni. Undanfarin misseri hafa Veitur staðið fyrir átakinu Blautþurrkan er martöð í pípunum sem ætlað er að vekja athygli á því að klósett eru ekki ruslafötur. Í þau eiga ekki að fara blautþurrkur, bindi, eyrnapinnar, tannþráður eða aðrar hreinlætisvörur. Á hverjum degi skilast mikið af rusli í hreinsistöðvarnar sem kostar mikla vinnu og fjármuni því hreinsa þarf stíflaðar dælur og farga ruslinu. Til viðmiðunar þá sturtum við fjórfalt meira niður af rusli en Svíar.
Fita og olía á heldur ekki heima í fráveitukerfinu og fita og blautklútar eru afleit blanda. Úr þeim geta orðið til svokallaðir fituhlunkar, sem eru eru stórt vandamál í fráveitukerfum víða um heim. Málning, leysiefni, lyf og önnur efni eiga ekkert erindi í niðurföllin, því skal skila í endurvinnslu.
Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í Reykjavík, Borgarnesi, á Akranesi, Bifröst, Hvanneyri, Varmalandi og í Reykholti. Þá er frárennsli frá Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og hluta Garðabæjar hreinsað í hreinsistöðvum fráveitunnar við Ánanaust og Klettagarða. Í Borgarbyggð reka Veitur fjórar tveggja þrepa hreinsistöðvar þar sem auk grófhreinsunar fer fram niðurbrot á lífrænum efnum áður en hreinsuðu skólpi er veitt í viðkvæman viðtaka.