Sjö andategundir urpu við Tjörnina sumarið 2016, þar af tvær tegundir sem verpa mjög sjaldan eða rauðhöfðaönd og toppönd. Viðkoma duggandar var sú besta í 36 ár og viðkoma skúfandar var einnig góð og sú besta í 15 ár.
Skýrsla um fuglalíf Tjarnarinnar var kynnt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 15. mars sl. Skýrslan byggist á árlegri vöktun á fuglum við Reykjavíkurtjörn og í friðlandinu í Vatnsmýri, með áherslu á fjölda anda og varpárangur þeirra. Einnig er fylgst með viðveru annarra fuglategunda, sérstaklega þeirra er verpa á svæðinu t.d. kría og grágæsa. Það eru fuglafræðingarnir Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson sem standa að þessari vöktun fyrir Reykjavíkurborg, sem hefur staðið yfir samfleytt frá árinu1973.
Fimm andategundir hafa verpt reglulega við Reykjavíkurtjörn undanfarin ár og áratugi og þrjár tegundir til viðbótar verpa stöku sinnum. Sumar varptegundirnar eru afkomendur ræktaðra anda sem sleppt var á Tjörnina á 7. og 8. áratug 20. aldar og hafa verpt síðan þá. Þar má nefna kafendurnar duggönd, skúfönd og æðarfuglinn. Aðrar tegundir hafa verpt þar af sjálfsdáðum um langa hríð eins og stokkönd eða hafið varp nýlega eins og urtönd sem hefur nú orpið árlega frá árinu 2014.
Sjö andartegundir urpu 2016
Árið 2016 urpu sjö andategundir við Tjörnina, þar af tvær tegundir sem eru mjög óreglulegir varpfuglar við Tjörnina, en það eru rauðhöfðaönd og toppönd. Fjórar af þessum sjö tegundum hafa verið reglulegir varpfuglar frá upphafi talninga 1973. Hjá tveimur þeirra duggönd og skúfönd var varpárangur með allra besta móti.
Viðkoma duggandar var sú besta í 36 ár eða frá 1980, en í talningum síðsumars sáust 6 ungamæður með samtals 37 unga. Hjá skúfönd var viðkoman einnig góð og sambærileg við sum af betri árum skúfandavarpsins í kringum aldamótin, en 11 kollur sáust með samtals 40 unga í talningunni. Hjá báðum þessum tegundum hefur verið vöxtur í ungaviðkomu síðustu ár eftir mjög mögur ár á síðasta áratug. Sérstaklega er vöxturinn hjá duggönd mikil framför.
Viðkoma stokkandar var einnig þokkaleg og sú besta í sjö ár en 16 kollur sáust með samtals 44 unga í lok júlí. Stokkandarkollum sem dvelja á Tjörninni á sumrin hefur farið ört fækkandi á síðustu 10 árum og var botninum náð árið 2014 en stofninn virðist vera á uppleið aftur og ætti betri ungaafkoma að hjálpa til við það.
Fellisteggjum við Tjörnina síðsumars fer þó enn fækkandi sem er áhyggjuefni. Varpstofn gargandar við Reykjavíkurtjörn hefur alltaf verið lítill en haldist þokkalega stöðugur í 1-2 pörum síðustu 10 ár. Gargöndum sem hafa vetursetu á Tjörninni hefur þó farið fjölgandi og sama á við um rauðhöfðaendur.
Styrkja valda varpstofna
Æðarfuglinn sem hefur verið reglulegur varpfugl frá 1973 virðist hins vegar vera að hverfa, en annað árið í röð komust engir æðarungar á legg og í raun fundust engin æðarhreiður þetta árið. Þessi þróun er úr takti við aðrar kafandategundir þ.e. duggönd og skúfönd. Æðarstofn Tjarnarinnar eru afkomendur ræktaðra fugla og náði stofninn töluverðri stærð á 8. og 9. áratug 20. aldar.
Að mati Snorra Sigurðssonar líffræðings hjá Reykjavíkurborg er ástæða til að velta fyrir sér hvort æðarfuglinn eigi lengur erindi sem varpfugl við Reykjavíkurtjörn
„Náttúruleg búsvæði æðarfugla eru fyrst og fremst við ströndina en umhverfi Tjarnarinnar telst óhefðbundið fyrir þá, ekki síst núna eftir að Tjörnin er ekki lengur ísölt. Fæðuframboð fyrir æðarfugla er því ekki ákjósanlegt og það sást á þeim síðustu árum sem æðarfuglinn verpti á Tjörninni að ungarnir voru stundum vannærðir að sjá. Ljóst er að til að viðhalda varpi æðarfugla þarf mun meira inngrip og aðstoð en fyrir hinar andategundirnar. Tilraunir með að rækta og sleppa æðarfuglum fóru fram sumarið 2014 en enginn af þeim tæplega 40 stálpuðu æðarungum sem var sleppt í Vatnsmýri sneru aftur sem varpfuglar og flestir drápust áður en þeir urðu alfleygir. Sú tilraun gekk því alls ekki sem skyldi. Þar sem fjölbreytni verpandi anda árið 2016 hefur sjaldan verið meiri og varpárangur nokkurra tegunda virðist vera á uppleið er ástæða til að velta fyrir sér hvort það sé í raun nauðsynlegt að endurvekja æðarvarpið. Ef til vill er skynsamlegra að reyna að styrkja frekar þá varpstofna sem eiga sér framtíð sem sjálfbærir varpstofnar og hæfa umhverfinu betur. En vissulega er eftirsjá af æðarfuglinum, enda einstaklega skemmtilegur og fallegur fugl. En það er auðvelt að sjá hann víða annars staðar í borginni í sínum náttúrulegu heimkynnum.“ segir Snorri.
Kríuvarpið þróttmikið
Af öðru fuglalífi er það að frétta að kríuvarpið var áfram mjög þróttmikið í friðlandinu í Vatnsmýri fimmta árið í röð. Í talningum í lok júlí sáust um 250 fullorðnar kríur og rúmlega 100 ungar sem er einhver besta viðkoma sem sést hefur hjá kríum við Tjörnina. Varpsvæði kríunnar í Vatnsmýri hefur þó tekið allnokkrum breytingum síðan það var útbúið árið 2012 og er nú mun grónara.
„Við þurfum að fylgjast vel með þessari gróðurframvindu og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að hún gæti gert kríunum erfiðara fyrir með varp. Við reiknum með að þurfa að grípa inn í og laga varpsvæðið þannig að það henti betur og erum við að skoða hvaða aðferðir gætu virkað. Það flækir hlutina að Friðlandið er auðvitað lokað fyrir umferð manna á varptíma og því ekki hægt að hirða gróðurinn þegar hann er í mestum vexti. En það þarf að finna lausnir á þessu. Annars höfum við verið í viðræðum við sérfræðinga hjá Háskóla Íslands um að rannsaka betur kríuvarpið og er mögulegt að einhverjar slíkar rannsóknir geti hafist í sumar“ segir Snorri Sigurðsson.
Í Vatnsmýrinni verptu einnig grágæsir en varpstofninn þar virðist þó vera að minnka. Fjórar vaðfuglategundir verptu þar einnig, hrossagaukur, sandlóa, stelkur og tjaldur. Þá bar óvenju lítið á sílamáfi við Tjörnina árið 2016 og sáust t.d. engir fuglar í talningu í lok júlí sem er jákvætt því þá er mest um andarunga og því áhrif afráns á afkomu unga væntanlega minni en oft áður. Svartbakur sem verpti í hólmanum í Norðurtjörn 2015 og kom upp tveimur ungum reyndi varp aftur en eggin voru fjarlægð og reyndi parið ekki varp aftur.
Vatnagróður nemur land að nýju
Miklar sviptingar hafa orðið á gróðurfari Reykjavíkurtjarnar á síðustu tveimur árum. Smánykra og fjallnykra hafa breiðst hratt út bæði í Suðurtjörn og Norðurtjörn og jókst þekja þessara tegunda milli 2015 og 2016 mjög mikið. „Það eru gleðitíðindi að vatnagróður sé að nema land í Reykjavíkurtjörn að nýju“ segir Snorri.
„Þetta er eitthvað sem við höfum viljað sjá lengi því það er vel þekkt að vatnagróður bætir hreinleika vatnsins og þar með lífsskilyrði fyrir smádýr sem eru lykilfæða fyrir fugla. Sumir fuglar sækja einnig í gróðurinn sjálfan sem fæðu t.d. álftin og mátti sjá fjöldan allan af álft hér í haust að éta nykruna. Þessi mikla og öra breyting kemur þó verulega á óvart og erfitt að útskýra hana og það verður forvitnilegt að sjá hvernig þetta þróast á næstu árum hver áhrifin verða á annað lífríki. Það mátti þó greinilega sjá að víða í Reykjavíkurtjörn varð vatnið mun tærara sumarið 2016 en við eigum að venjast síðustu ár. Það er vel þekkt að magn lífrænna efna í Tjörninni er mjög hátt og hætta á lífrænni mengun til staðar. Það kom upp tilfelli seinasta sumar á hlýindaskeiði í lok júlí að það varð þörungablómi í Norðurtjörn og blágrænir þörungar mynduðu mjög áberandi og óaðlaðandi skán á vatnsyfirborðinu og vatnið varð mjög gruggugt. Þetta er ekki óvænt en vissulega óæskilegt ástand. Það var því ánægjulegt að sjá að Tjörnin náði að hreinsa þetta sjálf án inngrips á tæpum tveimur vikum og varð aftur tær. Hið mikla magn vatnagróðurs hlýtur að hafa skipt máli þar,“ segir Snorri.
Undanfarin tvö ár hefur farið fram ítarleg rannsókn á lífríki Tjarnarinnar, bæði gróðurfari og smádýralífi. Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur sinnt þeim rannsóknum. Hluti af niðurstöðum rannsóknarinnar liggja fyrir og eru að mörgu leyti áhugaverðar. Von er á á lokaskýrslu á næstu vikum og verður greint betur frá henni á vef borgarinnar þegar þar að kemur.
Tenglar