Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar til 2020 var samþykkt í borgarstjórn í dag.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir húsnæðismálin mikilvægasta viðfangsefni borgarinnar, aldrei hafi verið meiri uppbygging í borginni en ekki veiti af því eftirspurnin eftir húsnæði sé mikil og húsnæðisáætlun borgarinnar eigi að tryggja að þeim fjölbreyttu þörfum sem fyrir hendi eru á húsnæðismarkaði verði mætt. Mesti vandinn sé hjá þeim sem búi við óöryggi á leigumarkaði eða vilji komast inn á markaðinn og kaupa sína fyrstu íbúð. Til að mæta fjölbreyttum þörfum á húsnæðismarkaði hafi þurft áætlun sem væri bæði félagsleg, stórhuga og róttæk.
Í húsnæðisáætluninni er sett fram greining á stöðu húsnæðismála í Reykjavík og birt yfirlit yfir aðgerðir borgarinnar í húsnæðismálum. Þar eru einnig birt töluleg markmið um fjölda íbúða sem þarf að byggja á næstu árum. Helstu byggingarsvæði í Reykjavík eru skilgreind. Þá er fjallað um það hvernig uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, sem Reykjavíkurborg beitir sér sérstaklega fyrir, verður háttað í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, húsnæðissamvinnufélög, samtök eldri borgara, stúdenta og einkaaðila, auk Félagsbústaða sem er leigufélag í eigu Reykjavíkurborgar.
Samhliða staðfestingu húsnæðisáætlunar voru eftirtaldar tillögur í húsnæðismálum samþykktar.
Uppbygging án hagnaðarsjónarmiða og félagsleg blöndun
Megináhersla verður lögð á lóðaúthlutanir og samstarf við húsnæðisfélög sem byggja upp án hagnaðarsjónarmiða. Staðfest áform slíkra félaga eru nú um 3.700 íbúðir. Tryggður verði framgangur áætlunar Reykjavíkurborgar frá 2014 um að uppbygging 2.500-3.000 íbúða verði hafin fyrir vorið 2019. Á nýjum uppbyggingarsvæðum hefur borgin það markmið að fjórðungur nýrra íbúða verði leigu- og búseturéttaríbúðir.
Sérstök áhersla verður lögð á að flýta uppbyggingu samkvæmt eftirfarandi yfirliti:
- Ný leiguheimili í samvinnu við ASÍ og BSRB, 1.000 íbúðir
- Nýjar stúdentaíbúðir, 1.340 íbúðir
- Nýjar félagslegar leiguíbúðir Félagsbústaða, yfir 600 íbúðir
- Ný heimili fyrir fatlað fólk með sérstakar þarfir, yfir 100 íbúðir
- Nýjar búseturéttaríbúðir, 450 íbúðir
- Nýjar íbúðir fyrir aldraða, 450 íbúðir
- Ný hjúkrunarrými, 200 rými
Hraðari uppbygging á nýjum svæðum
Markmið um árlega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík verður hækkað úr 700 íbúðum í 1.250 íbúðir á ári næstu fjögur árin. Langtímameðaltal í aðalskipulagi verður hækkað úr 700 íbúðum á ári í 800 íbúðir á ári. Til að framfylgja þessu markmiði eru svæði með yfir 2.500 íbúðum komin á framkvæmdastig, aðrar 2.500 íbúðir liggja fyrir í staðfestu deiliskipulagi, 4.000 íbúðir eru í formlegu skipulagsferli og 9.000 eru á þróunarstigi.
Til að ofangreind markmið náist verður skipulagsvinnu og lóðaúthlutunum á eftirtöldum svæðum hraðað.
- Þriðja áfanga Bryggjuhverfis.
- Skerjafirði, 800 nýjar íbúðir
- Úlfarsárdal, 500 nýjar íbúðir
- Ríkislóðum sem verða skipulagðar í samvinnu við ríkið. Allt að 1.100 nýjar íbúðir gætu risið á þessum lóðum sem eru á nokkrum stöðum í borginni.
Betri og öruggari leigumarkaður
Sérstakur húsnæðisstuðningur verður hækkaður í allt að 90.000 kr. á mánuði fyrir þá sem standa höllustum fæti. Leigjendur Félagsbústaða verða sömuleiðis varðir fyrir óumflýjanlegum hækkunum á leigu Félagsbústaða gegnum hækkun á sérstökum húsnæðisstuðningi.
Með breytingum á skipulagi og sérstöku, einfölduðu umsóknarferli verði borgarbúum gert auðveldara að skilgreina aukaíbúðir og útleigurými. Samþykkt rými uppfylla kröfu og rétt til greiðslu húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta, ef við á.
Eftirlit með skammtímagistingu og reglum um Airbnb og sambærilega útleigu til ferðamanna verður hert í samræmi við tillögur um innleiðingu nýs regluverks í því efni.
Reykjavíkurborg styður hugmyndir um „tómthús-skatt“ sem lagður yrði á íbúðir þar sem enginn er skráður til lögheimilis til að stuðla að eðlilegri skattlagningu ólöglegra ferðamannaíbúða og stuðla að fjölgun íbúða í langtímaleigu.
Gerð verði úttekt á óleyfishúsnæði og aðbúnaði erlendis vinnuafls sem starfar tímabundið á Íslandi og búsetuhagir þeirra kannaðir. Gerðar verði tillögur til úrbóta á grundvelli þeirrar greiningar.
Ódýrari íbúðir, ungt fólk og fyrstu kaupendur
Uppbygging á lóðum sem ríkið lætur af hendi verði sérstaklega miðuð að þörfum ungs fólk og bætist við fyrri áætlanir. Við skipulagningu byggðar á Ártúnshöfða verði lögð áhersla á ódýrara húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Í Gufunesi verði skipulag miðað við smáhýsi og tilraunahverfi. Á báðum þessum svæðum er gert ráð fyrir að opna á samstarf við aðila sem sýna fram á nýjar leiðir við byggingu og hönnun húsnæðis sem ætlað er fyrstu kaupendum. Enn fremur er lagt til að skipulags- og byggingarferlar verðir einfaldaðir.