Starfsfólk umhverfis- og skipulagsviðs í Borgartúni hreinsuðu nærumhverfi sitt í morgun í góðu veðri í tilefni af evrópskri hreinsunarviku 2.-7. maí. Á laugardaginn er sérlegur hreinsunardagur borgarbúa.
Í morgun hreinsaði starfsfólk umhverfis- og skipulagsviðs í Borgartúni nærumhverfi sitt í blíðskaparveðri í tilefni af evrópskri hreinsunarviku 2.-7. maí. Starfsfólkið tók sér poka og hanska í hönd og arkaði á tiltekin hreinsunarsvæði. Margar hendur vinna létt verk og á klukkustund safnaðist fjöldi poka af almennu rusli. Plast og pappír var algengasta efnið en sígarettustubbar lágu líka hvarvetna. Reykingafólk ætti að temja sér betri siði því stubbarnir lifa lengi í náttúrunni og eru flestum til ama.
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hvetur aðrar stofnanir og fyrirtæki til að huga að nærumhverfi sínu og efna til hreinsunar.
Hreinsum borgina okkar
„Tökum þátt og látum okkur annt um umhverfið, því borgin er okkar,“ segir Einar Guðmannsson verkefnisstjóri hreinsunarátaksins Hreinsum Reykjavík saman. Í ár er lögð áhersla á að hreinsa opin leiksvæði vel og er takmarkið að gera borgina hreina fyrir sumarið. Yfirleitt komi mikið af rusli undan snjónum á vorin. Borgarbúar geta sótt ruslapoka á hverfisstöðvar Reykjavíkurborgar á Njarðargötu, við Jafnasel og Stórhöfða á meðan á átakinu stendur.
Til að auðvelda borgarbúum og félagasamtökum verkið er hægt er að velja sér svæði og skrá það á vef borgarinnar. Einnig er fólk hvatt til að senda myndir á facebook síðu átaksins og einnig #hreinsumsaman.
Gönguhópar Korpúlfa í Grafarvogi eru góð fyrirmynd í þessum efnum en Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, afhenti þeim viðurkenningarskjal í upphafi vikunnar fyrir öflugt starf félagsmanna við hreinsun hverfisins. Tökum þátt og tínum rusl.
Starfsfólk Reykjavíkurborgar verður á ferðinni á laugardaginn 6. maí og mun svo sækja ruslapokana á valda staði sem merktir verða á kortum skráningarsíðunnar af hópunum sjálfum. Einnig er hægt að senda ósk um að pokar verði sóttir til borgarinnar á netfangið upplysingar@reykjavik.is eða í síma 411 1111.
Það er spáð rjómablíðu í Reykjavík og um allt land næstu daga.
Tengill
#hreinsumsaman