Reykjavíkurborg hlaut jafnréttisviðurkenningu jafnréttisráðs 2016 fyrir brautryðjendastarf að innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, afhenti borgarstjóra viðurkenninguna.
Tveir aðilar hlutu viðurkenninguna að þessu sinni, Reykjavíkurborg og Samtök um Kvennaathvarf.
Reykjavíkurborg og starfsfólk borgarinnar fá jafnréttisviðurkenningu 2016 vegna brautryðjendastarfs að innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar í starfsemi borgarinnar og fyrir að þróa þá aðferðarfræði áfram í þeim hagræðingaraðgerðum sem borgin stendur nú frammi fyrir. Þetta starf felur í sér mikilvægan lærdóm og hvatningu fyrir sveitarfélög og ríkisstofnanir.
Samtök um Kvennaathvarf fær jafnréttisviðurkenningu 2016 fyrir að hafa starfrækt Kvennaathvarf frá árinu 1982. Samtökin eru grasrótarsamtök sem hafa sýnt mikla þrautseigju í rekstri athvarfsins og náð að þróa starfsemina þannig að hún geti tekist á við áskoranir hvers tíma.
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, afhenti viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í gær.