Húsfyllir var á íbúafundi sem haldinn var í Breiðagerðisskóla í gærkvöldi, en þar var kynnt hvernig unnið verður að gerð hverfisskipulags fyrir borgarhlutann Háaleiti og Bústaði. Hverfisskipulag er ný áætlun sem gerð verður fyrir öll hverfi Reykjavíkur og er því er ætlað að auðvelda skipulag, áætlanagerð og hvetja fólk til að hafa aukin áhrif á sitt hverfi.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafði framsögu um þjónustu, mannlíf og framkvæmdir í Háaleiti – Bústöðum. Hann gerði þjónustu skóla og leikskóla skil, sem og félagsstarfi í hverfinu, fór yfir niðurstöður þjónustukönnunar sem gerð var meðal íbúa, sýndi myndir af nýlegum framkvæmdum og kynnti fyrirhugaðar framkvæmdir. Einkum voru kynntar þær framkvæmdir sem eru áætlaðar í sumar en einnig fór Dagur yfir skipulagshugmyndir sem eru í deiglunni. Kynningarglærur sem hann notaði eru hér.
Eldhugar óskast
Ævar Harðarson, arkitekt og verkefnisstjóri hverfisskipulags, lýsti verkáætlun þess og aðferðafræði. Haft verður gott samráð við íbúa og hagsmunaaðila og kallaði Ævar sérstaklega eftir eldhugum til að sitja í sérfræðingahóp. Hann hvatti áhugasama til að hafa samband t.d. með tölvupósti á netfangið hverfisskipulag@reykjavik.is . Kynningarglærur Ævars eru hér.
Verkefnisstjórar hverfisskipulagsins verða mikið á ferðinni í borgarhlutanum á næstunni. Í dag milli kl. 15 – 17 verða þau við í þjónustumiðstöðinni í Efstaleiti (Útvarpshúsinu) og á morgun á sama tíma í Borgarbókasafninu í Kringlunni.
Sundlaug í Fossvogsdal
Margrét Ólafsdóttir, ráðgjafi BS í landfræði & MPA opinberri stjórnsýslu, fór yfir skipulag Fossvogsdalsins, en það ber merki þróunar svæðisins frá því byggð fór að festa sig þar í sessi á sjöunda áratugnum. Fyrir liggur að fara í aukið samstarf við Kópavog um svæðið og eru viðfangsefni deiliskipulagsins eftirfarandi:
- betri tengingar í aðliggjandi hverfi
- nýir göngu- og hjólastígar
- aðstaða fyrir reiðhjól
- aukin trjárækt
- möguleg sundlaug og staðsetning
- möguleg veitingaaðstaða
Skoða styrk og veikleika
Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir, landslagsarkitekt fór yfir verklýsingu fyrir hverfisskipulag í borgarhlutanum.
Borgarhlutinn liggur miðlægt á höfuðborgarsvæðinu og afmarkast í vestri af Kringlumýrarbraut, í norðri af götunum Suðurlandsbraut, Grensásvegi og Miklubraut, í austri af Reykjanesbraut og í suðri liggur borgarhlutinn að Kópavogi í Fossvogsdal.
Hverfisskipulag borgarhlutans mun taka mið af fjórum skilgreindum hverfum:
Borgarhlutinn liggur miðlægt á höfuðborgarsvæðinu og afmarkast í vestri af Kringlumýrarbraut, í norðri af götunum Suðurlandsbraut, Grensásvegi og Miklubraut, í austri af Reykjanesbraut og í suðri liggur borgarhlutinn að Kópavogi í Fossvogsdal.
Hverfisskipulag borgarhlutans mun taka mið af fjórum skilgreindum hverfum:
- Háaleiti – Múlar,
- Kringlan, Hvassaleiti, Leiti og Gerði,
- Bústaða- og Smáíbúðahverfi
- Fossvogshverfi - Blesugróf
Sigurbjörg Ósk fór yfir hvernig skoða á styrk og veikleika og tók nokkra þætti sem dæmi. Glærukynning Sigurbjargar er hér.
Ánægja með búsetu í hverfinu
Embla Óðinsdóttir, formaður nemendafélags Réttarholtsskóla, ávarpaði fundinn og sagði að hvergi væri betra að alast upp og búa, en hins vegar væri ekkert fullkomið og margt væri hægt að bæta. Hún nefndi betri strætisvagnasamgöngur, betri staðsetningu á annars frábærri félagsmiðstöð og fleiri útivistarmöguleika eins og hjólabrettarampa, körfuboltakörfur og útieldunaraðstöðu, sem möguleika í að gera gott hverfi betra.
Hörður J. Oddfríðarson, varaformaður hverfisráðs, stýrði fundinum og reyndi mest á hann í að koma sem flestum fyrirspurnum að í lok fundar. Fundarmenn bæði lofuðu það sem gert hefur verið og bentu á margt sem betur má fara. Flestum spurningum var beint til borgarstjóra og starfsmanna Reykjavíkurborgar um samgöngumál. Var þar einkum endurgerð Grensásvegar sunnan Miklubrautar sem skiptar skoðanir voru um meðal fundarmanna. Fundurinn stóð til ellefu og sagði einn fundarmanna þegar hann gekk í burt: „Þetta var mjög fróðlegt, en helst til langt,“ og tóku samferðamenn undir það.