Nýútkomin skýrsla um sára fátækt bendir til þess að staða fólks á húsnæðismarkaði og heilsufar séu lykilþættir sem spá fyrir um hvort fólk búi við hana eða ekki.
Hagstofa Íslands vann skýrsluna að beiðni Velferðarvaktarinnar og fjallar hún um þá sem búa við sára fátækt á Íslandi. Tilgangurinn var að bera kennsl á þá hópa sem búa við sára fátækt í íslensku samfélagi. Einnig er horft til þess að sú greining sem fram kemur í skýrslunni geti nýst við frekari stefnumótun stjórnvalda.
Auk húsnæðis og heilsu benda niðurstöður til þess að einhleypt barnlaust fólk og einstæðir foreldrar og börn þeirra séu í meiri hættu en aðrir á að lenda í sárafátækt. Niðurstöður benda þó til að horfa verði til samspils húsnæðisstöðu, heilsufars og heimilisgerðar við stefnumótun sem lýtur að sárafátækt.
Þeir sem búa við sárafátækt samkvæmt þeirri skilgreiningu sem er lögð til grundvallar skýrslunni eru þeir sem búa á heimili þar sem fernt af eftirfarandi á við:
- Hefur lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna
- fjárskorts á síðastliðnum 12 mánuðum.
- Hefur ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni.
- Hefur ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð
- að minnsta kosti annan hvern dag.
- Getur ekki mætt óvæntum útgjöldum.
- Hefur hvorki efni á heimasíma né farsíma.
- Hefur ekki efni á sjónvarpstæki.
- Hefur ekki efni á þvottavél.
- Hefur ekki efni á bíl.
- Hefur ekki efni á að halda húsnæðinu nægjanlega heitu.
Að Velferðarvaktinni standa samtök, aðilar vinnumarkaðarins, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélögin.