Borgarráð hefur samþykkt tillögur um lýðheilsu og heilsueflingu meðal barna og unglinga í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi.
Í tillögunum felst að þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar verði miðpunktur alls heilsueflingarstarfs innan borgarhverfanna. Verkefnastjóri í hverju hverfi stýrir heilsueflingarteymi sem jafnframt vinnur að forvörnum. Teymið verður skipað fulltrúum ungmennaráða, öldungaráðs, foreldrasamfélagsins og fl. Einnig fela tillögurnar í sér að sérhvert borgarhverfi myndi sér stefnu um heilsueflingu til framtíðar þar sem unnið verði að ákveðnum markmiðum, þvert á allar stofnanir eða skipulagseiningar.
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar mun að tryggja verkefnastjórum menntun og þjálfun í heilsueflingu og vinna tengslavinnu í hverfunum í samstarfi við leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðvar. Embætti landlæknis mun veita fræðslu og stuðning til starfsstöðva og gert er ráð fyrir að skólar og frístundamiðstöðvar verði í samstarfi um heilsueflingu í sínum hverfum, t.d. á sameiginlegum starfsdögum. Stýrihópur um lýðheilsu og jöfnuð mun fylgja heilsueflingarstarfi borgarinnar eftir og mæla árangur
Ráðstefna um lýðheilsu og skipulag
Líður í stefnumótun borgaryfirvalda um lýðheilsu er að efna til ráðstefnu fyrir fagfólk borgarinnar á báðum skólastigum, á sviði skipulagsmála og starfsfólk þjónustumiðstöðvanna. Yfirskrift ráðstefnunnar er Lýðheilsa, skipulag og vellíðan og verður hún haldin á Hilton Nordica hóteli þriðjudaginn 11. október.
Á ráðstefnunni verður fjallað um það hvernig megi skipuleggja umhverfi og starf þannig að það stuðli að heilbrigðum lifnaðarháttum eins og hreyfingu, næringu og góðum svefnvenjum til að efla heilsu og vellíðan íbúa á öllum æviskeiðum (í leikskóla, grunnskóla, í frístundarstarfi, framhaldsskólum, vinnustöðum og á efri árum).
Aðalfyrirlesarará ráðstefnunni eru Lauwrence D. Frank, prófessor við Háskólann í British Columbiu og höfundur fjölmargra bóka um áhrif borgarskipulags á lýðheilsu og dr. Sarah Stewart-Brown prófessor í lýðheilsuvísindum við Warwick Medical School. Þá flytja erindi dr. Páll Jakob Líndal umhverfissálfræðingur, Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir hjá Embætti landlæknis.
Ráðstefnan Lýðheilsa, skipulag og vellíðan er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Embættis landlæknis, Rannsókna og greininga og Reykjavíkurakademíunnar.