Blönduð íbúðabyggð við Bólstaðarhlíð

Skipulagsmál

""
Borgarráð samþykkti deiliskipulag fyrir Kennaraháskólareit og Bólstaðarhlíð í dag, 30. júní. Gert er ráð fyrir um 100 íbúðum, fyrir námsmenn og um 60 íbúðum fyrir aldraða. 
Skipulagssvæðið umhverfis Bólstaðarhlíð einkennist af gamalgróinni íbúðabyggð frá árunum í kringum 1950 og menntastofnunum, m.a. fyrrum Kennaraháskóla Íslands og Skóla Ísaks Jónssonar. Einnig er dvalarheimili og félagsmiðstöð aldraðra austan við reitinn.  Borgarráð samþykkti deiliskipulag fyrir svæðið í dag, 30. júní.
 
Markmið skipulags A2F arkitekta um reitinn er að skapa aðlaðandi og vandaða íbúðabyggð fyrir blandaða aldurshópa. Gert er ráð fyrir um 100 íbúðum, fyrir námsmenn og um 60 íbúðum fyrir aldraða.  Gera má ráð fyrir fjölbreyttu fjölskyldumynstri á svæðinu.
 
Í byggð til vesturs er gert ráð fyrir að meirihluti íbúa séu námsmenn, austast er gert ráð fyrir að meirihluti íbúa sé eldri borgarar. Fyrir miðju er gert ráð fyrir meiri blöndun. 
 
Byggðin hefur létt yfirbragð og aðlagar sig að núverandi byggð í kring. Húsaraðir eru brotnar upp í minni einingar og gert er ráð fyrir hallandi þaki, eins og finna má á flestum húsum í kring.
 
Tekið er tillit til sólarátta og byggð skipulögð þannig að hún skapi sem mest skjól fyrir veðri og vindum - góð útivistarsvæði skapast einnig til dvalar og leiks. Í efnisvali er lögð er áhersla á vistvæn efni og hlýlegt yfirbragð húsanna.
 
Byggðinni má skipta upp í fjóra reiti, húsaeiningarnar mynda fjóra garða. Það er því auðveldlega hægt að skipta byggðinni upp og framkvæmdir geta átt sér stað í áfangum.

Áhersla á tengingar fyrir hjólandi og gangandi

Mikil áhersla er lögð á góðar tengingar fyrir hjólandi og gangandi á svæðinu. Samgönguás, sem liggur úr vestri til austurs, tengir félagsmiðstöðina í dvalarheimilinu við svæðið, auk þess að tengjast núverandi gönguleiðum. Hin nýja byggð mun þróast í kringum þessar samgönguleiðir.
 
Hægt verður að keyra inn á svæðið úr vestri frá Stakkahlíð og úr austri frá Bólstaðarhlíð. Ekki er gert ráð fyrir að keyrt sé í gegnum svæðið þvert. Bílakjallari er í nyrsta reitnum þar sem á efri hæðum er gert er ráð fyrir íbúðum fyrir eldri borgara.
 
Í stað núverandi bílastæðis við nemendaíbúðirnar (Bólstaðarhlíð 23) er gert ráð fyrir garði sem m.a. er útbúinn til íþróttaiðkunar. Íbúar geta samnýtt nýju bílastæðin sem komið hefur verið fyrir við Stakkahlíð, fjöldi stæða er þar svipaður og áður.

Garðar og útivistarsvæði

Nýjar byggingar munu mynda fjóra garða sem tengjast allir gönguleiðakerfi svæðisins. Í einum þeirra norðan við núverandi námsmannaíbúðir, er gert ráð fyrir aðstöðu til íþróttaiðkunar, s.s. blakvelli. Í tveimur görðum er gert ráð fyrir leiksvæðum og ræktunarreitum þar sem íbúum gefst kostur á að leigja aukalega reit til grænmetisræktunar.Í austasta garðinum er gert ráð fyrir torgi með gróðri, bekkjum o.þ.h. til hvíldar.