Reykjavíkurborg leitar að nýjum forstöðumanni Höfuðborgarstofu með brennandi áhuga á að gera góða ferðamannaborg enn betri. Umsóknarfrestur er til og með 10. ágúst.
Höfuðborgarstofa ber ábyrgð á verkefnum tengdum ferðamálum og vinnur að því að nýta sóknarfæri og styrkleika Reykjavíkur á því sviði. Höfuðborgarstofa rekur fjölþætta upplýsingamiðlun fyrir ferðamenn og sér um framkvæmd stórra borgarhátíða ásamt samráði og ráðgjöf við skipuleggjendur annarra viðburða í borginni.
Næstu 3 - 5 árin mun starfsemi Höfuðborgarstofu taka mið af nýrri aðgerðaáætlun Ferðamálastefnu Reykjavíkur. Þar eru sett í forgang verkefni tengd innviðum, gæðum og skipulagi áfangastaðarins, móttaka gesta, samstarf og þróun ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt er fyrirsjáanlegt að málefni miðborgarinnar munu í auknum mæli verða á ábyrgð Höfuðborgarstofu. Forstöðumaður mun því leiða framkvæmd nýrrar forgangsröðunar og þær breytingar á starfseminni sem hún kallar á.
Nánari upplýsingar um starfsemi og stefnumótun má sjá á vefnum www.visitreykjavik.is og undir útgefið efni á vef menningar- og ferðamálasviðs.
Ábyrgðarsvið forstöðumanns:
- Stjórnun, rekstur og stjórnsýsla stofnunarinnar.
- Fjármál, starfsmannamál og framkvæmd ákvarðana menningar- og ferðamálaráðs og borgaryfirvalda sem að Höfuðborgarstofu snúa.
- Skipuleggur þjónustu stofnunarinnar og leiðir aðra faglega starfsemi hennar.
Starfið gerir kröfu um:
- Menntun á háskólastigi sem nýtist í starfi. Framhaldsmenntun kostur.
- A.m.k. 5 ára stjórnunarreynslu með áherslu á breytingastjórnun.
- Leiðtogahæfileika, hugmyndaauðgi og mikla skipulagshæfni.
- Haldbæra reynslu af áætlanagerð, fjármála- og verkefnisstjórnun.
- Umtalsverða þekkingu og reynslu á vettvangi ferðamála og viðburða.
- Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum og þjónustulund.
- Mikla hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti.
- Góða tungumálakunnáttu.
Umsókn skal gera grein fyrir hvernig umsækjandi mætir öllum ofangreindum kröfum. Jafnframt er óskað eftir greinargerð að hámarki 2 A4 bls. þar sem umsækjandi lýsir hugmyndum sínum og áherslum fyrir Höfuðborgarstofu og ferðaþjónustu í Reykjavík.
Launakjör heyra undir kjaraákvörðun kjaranefndar Reykjavíkurborgar og um ráðningarréttindi gilda reglur um réttindi og skyldur stjórnenda hjá Reykjavíkurborg. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.
Næsti yfirmaður er sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs sem fer með framkvæmd menningar- og ferðamála hjá Reykjavíkurborg. Sviðinu tilheyra auk Höfuðborgarstofu, menningarstofnanir Reykjavíkurborgar: Borgarbókasafn Reykjavíkur - menningarhús, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Listasafn Reykjavíkur.
Nánari upplýsingar veita: svanhildur.konradsdottir@reykjavik.is og berglind.olafsdottir@reykjavik.is auk þess sem vakin er sérstök athygli á markmiðum starfsmanna- og mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Umsóknarfrestur er til og með 10. ágúst nk. Umsóknir skulu sendar á vef Reykjavíkurborgar www.reykjavik.is/storf.