Óðinstorg og Laugavegur kynnt í París

Umhverfi Skipulagsmál

""
Aðgerðir Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum og vistvæn verkefni á götum og torgum borgarinnar verða kynnt á loftslagsfundinum í París.
Fulltrúi Reykjavíkurborgar mun flytja tvær kynningar í tengslum við loftslagsfund Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Parísarborg 30. nóvember til 11. desember. Þar er vonast til þess að þjóðir heims undirriti nýjan rammasamning SÞ vegna loftslagsbreytinga og ráðstefnan festi í sessi breytta hugmyndafræði viðvíkjandi baráttunni gegn hnattrænni hlýnun.
 
Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs heldur erindi á fundi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og segir þar frá áherslum Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum. „Það er mikilvægt að Reykjavíkurborg fái tækifæri til að taka þátt í umræðunni og að leggja sitt af mörkum á ráðstefnunni,“ segir Ólöf og að það hafi gildi að vera virkur þátttakandi í umræðum um loftslagsmál á þessum vettvangi.


Markmiðið borgarinnar er að dregið verði úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 35% til ársins 2020 og 73% til ársins 2050 miðað við losunina 2007. Unnin verður stefnumörkun til aðlögunar að loftslagsbreytingum.

Hvatning fyrir gangandi og hjólandi

Í tilefni af loftslagsfundinum var óskað eftir dæmisögum frá borgum sem sýndu fram á víðtæka nálgun til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Óskað var sérstaklega eftir dæmum sem efla mannlíf og félagslega þætti. Reykjavíkurborg sendi inn tillögu um Torg í biðstöðu en inntak þess verkefnis er meðal annars að endurmeta borgarrými  og gera borgarumhverfið líflegra og þar með meira aðlaðandi fyrir þá sem kjósa að ganga og hjóla.


Torg í biðstöðu var valið til kynningar og mun Ólöf Örvarsdóttir segja frá völdum torgum í borginni, meðal annars Óðinstorgi sem hefur verið tilraunatorg undanfarin ár og glætt mannlífið með margvíslegum hætti. Hún mun einnig segja frá Laugaveginum. Í sömu málstofu verða fulltrúar frá Bristol í Englandi, sem er græna borgin í Evrópu 2015, og Malmö í Svíþjóð með kynningar en þær borgir eru báðar mjög framarlega í umhverfismálum. Reykjavíkurborg fékk Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2014.

Framlag borga skiptir sköpum

Einn liður í loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar er að borgin hafi frumkvæði að samstarfi við íbúa, fyrirtæki o.fl. með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í samræmi við þá áherslu hefur Reykjavíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, efnt til samstarfs 103 fyrirtækja og stofnana sem skuldbinda sig til að setja sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Sú yfirlýsing verður lögð fram í París.


Einnig verður lögð fram norræn yfirlýsing um loftslagsmál sem borgarstjórar Norðurlandanna skrifa undir og er það gert af frumkvæði Reykjavíkurborgar.


Miklar vonir eru bundnar við framlag borga í loftslagsmálum. Rúmlega helmingur jarðarbúa býr í borgum og þar er deiglan í fjármálum og nýsköpun. Líklegt þykir að vísindamenn beini nú rannsóknum sínum meira að hlutverki borga í því augnamiði að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrsta vika loftslagsráðstefnunnar verður helguð sveitarfélögum.
 
Tengill