A-sveit Rimaskóla sigraði Íslandsmót grunnskóla í skák 2015 eftir æsispennandi baráttu við Álfhólsskóla í Kópavogi.
Rimaskóli hlaut 29 vinninga á mótinu og sigraði Álfhólsskóla í lokaviðureign, en sá hreppti 28 og hálfan vinning. Í þriðja sæti varð skáksveit Laugalækjarskóla með 24 og hálfan vinning.
Íslandsmótið var haldið í Rimaskóla helgina 18. og 19. apríl og mættu 30 skáksveitir til leiks.
Strax í fyrstu umferð drógust Rimaskóli og Álfhólsskóli saman og lauk þeirri viðureign með sigri Kópavogsbúa 3-1. Eftir það sneri Rimaskólasveitin við blaðinu og vann örugglega allar skákir sem eftir voru og sigraði mótið. Þetta er fimmta árið í röð sem Rimaskóli vinnur Íslandsmót grunnskólasveita. Á þeim tíma hefur orðið algjör endurnýjun í skáksveitinnni.
Með sigrinum tryggði Rimaskóli sér þátttökurétt á Norðurlandamóti grunnskólasveita en þar hefur skólinn náð einstökum árangri í rúman áratug.
Mikill skákáhugi er í Rimaskóla og á hverju ári koma fram nýir og sterkir skákmenn sem halda merki skólans á lofti. Nansý Davíðsdóttir, 13 ára skákdrottning, leiðir sveit Íslandsmeistaranna en hún er talin öflugasta skákkona Norðurlanda í sínum aldursflokki. Aðrir í sveitinni hafa allir reynslu af Íslands- og Norðurlandamótum. Skáksveit Rimaskóla ætlar sér stóra hluti á væntanlegu Norðurlandamóti sem verður í Danmörku í september næstkomandi.
Helstu leiðbeinendur krakkanna eru Helgi Ólafsson stórmeistari, Björn Ívar Karlsson frá Skákakademíu Reykjavíkur og Jón Trausti Harðarson fyrrum nemandi Rimaskóla og margfaldur meistari í liði skólans. Umsjónarmaður skákstarfsins í Rimaskóla er Helgi Árnason skólastjóri.