Fjölgun eldri borgara kallar á breyttar áherslur í heimaþjónustu Í dag eru 11% þjóðarinnar 67 ára og eldri og mun það hlutfall tvöfaldast á árinu 2060. Velferðarráð hefur fengið kynningu á niðurstöðum árangursríks tilraunaverkefnis á velferðarsviði sem miðar að því að endurhæfa og auka sjálfstæði eldri borgara.
Umsókn borgarinnar um að vera aldursvæn borg samkvæmt stöðlum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar (WHO) hefur verið samþykkt og Reykjavík hefur sett sér stefnu í málefnum eldri borgara ásamt aðgerðaráætlun til ársins 2017.
Sem lengst herra yfir eigin lífi/Virkir þátttakendur í eigin lífi
Búið er að samþætta heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu í Reykjavík með það að leiðarljósi að auka þjónustu við þá sem eru elstir og veikastir. Til að gera enn betur í endurskipulagningu þjónustunnar var litið til Dana sem hafa náð ágætis árangri með verkefni sem heitir „Længst muligt eget liv“ og byggir á endurhæfingu við athafnir daglegs lífs.
Aðferðin hefur verið notuð síðan 2008 í Danmörku og hefur stuðlað að auknu sjálfstæði eldri borgara. Lögð er áhersla á að virkja eldri borgara og styrkja þá til að vera virkir þátttakendur í eigin lífi, eins lengi og mögulegt er. Þetta bætir lífsgæði þeirra og gerir þeim kleift að vera lengur án varanlegrar aðstoðar frá sveitarfélaginu.
Hjá heimaþjónustu í efri byggðum borgarinnar (Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi og Breiðholti) var ráðinn þverfaglegur hópur til að prófa sambærilegt verkefni í Reykjavík. Markhópurinn var 67 ára og eldri, einstaklingar sem voru að sækja um þjónustu í fyrsta sinn. 38 þeirra fóru í gegnum endurhæfingu á fimm mánaða tímabili. Meðal þess sem þeir gerðu var að læra að mæla eigin blóðþrýsting, vera án súrefnis hluta úr degi, elda, baðast án aðstoðar, vera sjálfbjarga með þrif á eigin heimili og biðja um aðstoð þegar á þurfti að halda. Í fyrstu var þjónustuþega/notenda vitjað einu sinni eða oft á dag en svo var dregið úr þjónustu eftir því sem þjónustuþegi varð sjálfstæðari.
Meiri lífsgæði
Á þessum fimm mánuðum kom fram að ánægja notenda var mikil og þeim fannst lífsgæði sín batna til muna. Starfsmenn teymisins, sem flestir höfðu áður unnið við einhvers konar heimaþjónustu, upplifðu einnig meiri starfsánægju og árangur af starfi sínu. Af þeim 38 sem fóru í gegnum endurhæfingarverkefnið voru 37% útskrifaðir sjálfbjarga, 39% voru með minni þjónustu en sótt var um og 24% voru með sömu þjónustu .
Með því að vinna að endurhæfingu á eins markvissan hátt og ofangreind hugmyndafræði gerir ráð fyrir má fullyrða að auka megi lífsgæði eldri borgara og spara kostnað sveitarfélagsins til lengri tíma litið.
Breyttar áherslur kalla jafnframt á viðhorfsbreytingu og mikilvægt er að leggja áherslu á þjálfun starfsfólks og að allir séu að vinna á samræmdan hátt. Verkefnið þykir hafa gefið heildræna yfirsýn yfir heimaþjónustuna, boðleiðir styttust og samskipti voru betri milli allra sem að þjónustunni koma, auk þess sem ánægja notenda var mikil.
Nánar um tilraunaverkefnið – Endurhæfing við athafnir daglegs lífs