Borgarritari með erindi á loftslagráðstefnunni í París

Umhverfi Mannlíf

""
Ellý Katrín Guðmundsdóttir, borgarritari, tók þátt í viðburði á COP21 loftslagsráðstefnunni í París sem þar sem fjallað var um hlutverk borga á sviði loftslagsmála. Viðburðurinn var skipulagður af Covenant of Mayors sem eru stærstu samtök borga á sviði loftslags- og orkumála á heimsvísu. Covenant of Mayors var sett á laggirnar árið 2008 og Reykjavíkurborg gerðist aðili árið 2009. Í dag eru um 7.000 borgir aðilar að þessum samtökum.
Meðal þeirra sem tóku þátt á fundinum voru auk Ellý Katrínar, Tine Heyse, staðgengill borgarstjóra Ghent í Belgíu, Josefa Erra Osefa Errazuriz, borgarstjóri Providencia í Chile, Julie Laernoes, staðgengill borgarstjóra Nantes borgar í Frakklandi, Marie-Christine Marghem, ráðherra orku- og umhverfismála í Belgíu og Daniele Violetti, framkvæmdastjóri skrifstofu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna UNFCCC.
 
Ellý Katrín fjallaði m.a. um það í erindi sínu hvernig Covenant of Mayors hefur gagnast Reykjavíkurborg og hvað hefur áorkast í kjölfarið. “Aðild Reykjavíkurborgar að Covenant of Mayors á sínum tíma beindi augum borgarinnar meira að loftlagsmálum og í kjölfarið setti borgin fram sín fyrstu markmið um samdrátt útblásturs gróðurhúsalofttegunda,” segir Ellý.
 
“Ég fjallaði líka um mikilvægi borga á sviði loftlagsmála og samstarf þeirra á því sviði. Ég tel það almennt viðhorf að borgir muni draga vagninn í loftlagsmálum til framtíðar. Meirihluti mannkyns býr í borgum og þar verður því mengunin mest en á sama tíma verða lausnirnar jafnframt til í borgum, sem eru jafnan miðstöð fjármála og nýsköpunar.”


Óháð stærð og staðsetningu borga þá telur Ellý að helstu verkefni þeirra séu af svipuðum toga. “Borgir vilja tryggja íbúum sínum heilnæmt umhverfi og almenn lífsgæði. Verkefni eins og góðir göngu- og hjólastígar, göngugötur, flokkun úrgangs, góðar almenningssamgöngur og útivistarsvæði eru m.a. til þess fallin að draga úr mengun og auka lífsgæði. Það má því segja að borgir hafi um þó nokkurn tíma verið að innleiða verkefni sem draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og gera má ráð fyrir að þær haldi ótrauðar áfram á þeirri braut. Borgir eru nú þegar farnar að undirbúa sig fyrir breytta framtíð og líklegast er talið að þær muni helst búa yfir þeim úrræðum sem  loftlagsbreytingar kalla á til framtíðar. Samstarf borga á alþjóðavísu mun skipta miklu máli í þessu samhengi.”
 

Ellý lýsti líka yfir ánægju sinni með aukna aðkomu “Non State Actors” að COP21 og Parísarsamningnum þar sem fyrirtæki, fjárfestar og frjáls félagasamtök, hafa gefið áheit um samdrátt gróðurhúsalofttegunda og styðja við innleiðingu nýs samnings. Þessir aðilar eru að svara þessu kalli af krafti. Reykjavíkurborg og Festa lögðu einmitt fram yfirlýsingu 104 íslenskra fyrirtækja um aðgerðir í loftslagsmálum á ráðstefnunni í París.