Austurhöfn skipulögð í Minecraft

Umhverfi Skóli og frístund

""

Nýtt skipulag fyrir Austurhöfn verður kynnt á DesignTalks fyrirlestradeginum í Hörpu á morgun, fimmtudaginn 12. mars.  Skipulagið er óvenjulegt að því leyti að það er gert í Minecraft forritinu, sem nýtur einkum vinsælda hjá börnum og unglingum.

Hópur ungs fólks á aldrinum 10 - 16 ára var fenginn til að að velta fyrir sér hvaða starfssemi væri hentug á svæðinu og hanna hús í samræmi við skipulag svæðisins. Verkefnið er hugsað til að vekja áhuga barna á skipulagsmálum og veita hönnuðum svæðisins og lóðareigendum innblástur.

Austurhafnarsvæðið við Hörpu fer fljótlega í uppbyggingu og segir Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt hjá Reykjavíkurborg að uppbyggingin muni án efa breyta  ásýnd borgarinnar nokkuð mikið. Byggingarmagn svæðisins var minnkað þegar deiliskipulaginu var breytt í fyrra, hæðir húsa voru lækkaðar og legu Geirsgötu breytt og mun hún mynda T-gatnamót við Kalkofnsveg. Hildur segir að það verði lærdómsríkt að sjá hvernig yngstu arkitektar landsins hanni svæðið.

Um er að ræða samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Hönnunarmiðstöðvar og menntafyrirtækisins Skemu. Hugmyndirnar munu einnig verða birtar á heimasíðu Reykjavikurborgar og á Facebook.

Menntafyrirtækið Skema í samstarfi við Reykjavíkurborg og Hönnunarmiðstöð verður með opið hús laugardaginn 14. mars kl. 13 – 15 í nýju tæknisetri sínu. Áherslan á opnu húsi verður á Minecraft og þá möguleika sem forritið býður upp á til sköpunar og hönnunar á mannvirkjum og heilu samfélögunum.

Tengt efni: