Áfram verður ódýrara að leggja í Reykjavík

Umhverfi Fjármál

""

Tímagjald í bílahúsum Bílastæðasjóðs hefur verið óbreytt í 13 ár en nú hefur verið ákveðið að hækka gjaldið.  Tímagjaldið verður 150 krónur fyrir fyrsta klukkutímann og 100 kr. á klst. eftir það. Breytingin tekur gildi 1. mars  n.k.  

Þrátt fyrir þessa hækkun er margfalt ódýrara að leggja í bílahúsum í Reykjavík en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna.  Í samanburði sem mbl.is gerði á nýja gjaldinu í Reykjavík er 3,5 til 7 sinnum dýrara að leggja í stæði í Osló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi, en í Reykjavík.  Sjá frétt > Ódýrara að leggja í Reykjavík.  

Kolbrún Jónatansdóttir framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs segir meginástæðuna fyrir hækkuninni vera taprekstur á bílahúsunum undanfarin ár, þrátt fyrir að tekist hafi að ná upp betri nýtingu á skammtímastæðum. Reykjavíkurborg rekur 7 bílahús fyrir 1.140 bíla.  Sjá nánar á www.bilahus.is  

Mánaðaráskrift í bílahúsum hækkar einnig

Mánaðargjald fyrir langtímastæði í bílahúsum hækkar einnig um 12,5%. Það er mismunandi eftir staðsetningu húsanna  og nýtingu þeirra, en eftir breytingu kostar mánaðarkort frá 4.500 til 11.900 kr.

Ódýrast er að vera með mánaðaráskrift að langtímastæði á Vitatorgi en dýrast í Ráðhúskjallaranum:

  • Vitatorg   kr. 4.500,
  • Bergstaðir efri hæð  kr. 6.300,
  • Stjörnuport   kr. 6.300,
  • Kolaport   kr. 7.200,
  • Traðarkot   kr. 7.200,
  • Bergstaðir neðri hæð  kr. 9.900,
  • Vesturgata   kr. 11.200,
  • Ráðhús   kr. 11.900.

Svo í borg sé leggjandi - Gjaldsvæði 1 stækkað

Gjaldsvæði 1 verður einnig stækkað og frá 1. mars mun það ná til Hverfisgötu, Grettisgötu, upp Skólavörðustíg og út Tryggvagötu. Megintilgangurinn með breytingunni er að auðvelda þeim sem þurfa að sinna erindum  í miðborginni að finna stæði, en vonast er til að langtímanotendur bílastæða færi sig á ódýrari stæðin við jaðar miðborgarinnar. Það má því segja að einkunnarorð Bílastæðasjóðs – svo í borg sé leggjandi – séu höfð að leiðarljósi við breytingarnar. Kolbrún segir að breyting á gjaldsvæðinu hafi ekki nein áhrif á handhafa íbúakorta.