Mat á arðsemi hraðlestar úr miðborg Reykjavíkur til Keflavíkurflugvallar var kynnt í dag. Í kynningu aðstandenda verkefnisins kom fram að bygging og rekstur hraðlestar sé hagkvæm fjárfesting í einkaframkvæmd sem ekki kallar á bein opinber framlög.
Lestarleiðin er um 47 km, þar af 12 km í jarðgöngum frá Straumsvíkursvæði að endastöð við BSÍ. Gert er ráð fyrir fjórum lestareiningum í rekstri, hver með fimm vögnum auk varaeiningar á viðhaldssvæði. Miðað er við að lestin gangi frá klukkan fimm að morgni til klukkan eitt eftir miðnætti og gangi á 15 mínútna fresti á annatíma en á hálftíma fresti þar fyrir utan. Ferðatími verður 15-19 mínútur.
Í niðurstöðum sem kynntar voru er gert ráð fyrir að samfélagslegur ábati af lestinni verði 40-60 milljarðar króna og er það einkum um að ræða ábata notenda vegna skilvirkni lestarsamgangna og ábata samfélagsins vegna öryggis og umhverfisáhrifa. Þá skapar verkefnið möguleika á samnýtingu við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem gætu minnkað umferðarþunga innan höfuðborgarsvæðisins.
Í takti við hugmyndir um samgöngumiðstöð í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur stutt greiningarvinnuna. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir niðurstöðurnar mjög áhugaverðar og það hafi komið honum á óvart að framkvæmdin væri möguleg án beinnar aðkomu opinberra aðila. Búið er að gera öll gögn aðgengileg og segir Dagur það mikilvægt svo hver og einn geti myndað sér skoðun um þetta mál. Mikilvægt sé að ná samstöðu í samfélaginu þegar um slíka stórframkvæmd er að ræða. Reykjavíkurborg sé jákvæð gagnvart þessu verkefni með að sjálfsögðu öllum eðlilegum fyrirvörum. Borgir stefnir á uppbyggingu öflugrar samgöngumiðstöðvar þar sem nú er BSÍ og hraðlest til Keflavíkur sé góður kostur í því samhengi.
Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa einnig stutt þá greiningarvinnu sem hefur farið fram, en á Suðurnesjum er verkefnið líklegt til að hafa áhrif til hækkunar á fasteignaverði og launastigi ásamt því að auka nýfjárfestingar og vaxtarmöguleika fyrirtækja þar vegna stærri markaðar og skilvirkari samgangna. Líklegt er að Suðurnes verði fýsilegri kostur en áður fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að vali á höfuðstöðvum.
Lest gæti verið komin á sporið eftir níu ár
Lagt er til að aðilar verkefnisins stofni hlutafélag um framhald málsins. Í kjölfarið sjái félagið um undirbúning og framkvæmd verkefnisins. Undirbúningur framkvæmda gæti hafist árið 2015, framkvæmdir verið komnar á fullt árið 2018 og lestin hafið rekstur árið 2023 að því gefnu að fjármögnun undirbúningsfélags ljúki fyrir árslok.
Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður 102 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að áætlaður fjöldi seldra ferða opnunarárið 2023 verði tæpar 4 milljónir, þar af 2,3 milljónir til flugfarþega og 1,7 milljón til annarra farþega af Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu. Miðað er við að 50% flugfarþega í millilandaflugi á leið til og frá landinu nýti lestina. Árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður tæpir 5,8 ma.kr., 4,1 ma.kr. vegna lesta og 1,7 ma.kr. vegna kerfis.
Fargjald er áætlað á bilinu 800-3.800 kr. Tekjur eru áætlaðar 10,5 ma.kr. á fyrsta rekstrarári. Tekjur af flugfarþegum eru 87% heildartekna. Reiknað er með 20% eiginfjárhlutfalli (20,5 ma.kr.) og lánsfjárþörf upp á 95 ma.kr., 82 ma.kr. vegna stofnkostnaðar og 13 ma.kr. vegna vaxtakostnaðar á framkvæmdatíma. Rekstrarafkoma verkefnisins (EBITDA) reiknast 4,7 ma.kr. á fyrsta rekstrarári og 9,1 ma.kr. á ári tíu. Verkefnið skilar hagnaði fyrir skatta frá og með ári fjögur og fer að greiða skatta á ári 11. Innri vextir verkefnisins af fjárfestingu hluthafa miðað við 30 ára rekstrartímabil eru 9,9%.
Skýrslurnar og nánari upplýsingar er að finna á vefslóðinni www.fluglestin.is.