Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að skipaður yrði starfshópur sem á að skoða möguleikann á því að koma á laggirnar hjólaleigukerfi í Reykjavík, eftir atvikum á höfuðborgarsvæðinu, eins og fram kemur í samstarfsyfirlýsingu borgarstjórnar.
Hjólaleigur eða Bike Sharing Systems hafa tryggt sér sess í fjölmörgum borgum erlendis þar sem lögð er áhersla á vistvænar samgöngur. Tilgangur þeirra er að veita fólki aðgang að hjóli fyrir ferðir sínar innan borgarmarkanna, á fyrirfram tilgreindum stöðum. Borgarbúar geta tekið hjól á einum stað og skilað því af sér á öðrum stað.Starfshópurinn á að afla upplýsinga um hjólaleigukerfi sem komið hefur verið upp í borgum erlendis og skoða með hvaða hætti slíkum kerfum hefur verið komið á laggirnar í viðkomandi borgum. þ.m.t.;
- aðkomu borgaryfirvalda að verkefninu, fjármögnun, rekstri og viðhaldi;
- staðsetningu, greiðslumáta og öðru fyrirkomulagi;
- samstarfi við einkaaðila um fjármögnun eða beina þátttöku í verkefninu;
- skilgreiningu markhópa og samspili við aðra ferðamáta;
-
greina hvernig mismunandi hjólaleigukerfi gætu hentað í Reykjavík og eftir atvikum á höfuðborgarsvæðinu og gera tillögur að fyrirkomulagi slíks kerfis.
Starfshópurinn á einnig að setja fram drög að kostnaðaráætlun og/eða útboðsfyrirkomulagi hjólaleigukerfis í Reykjavík. Miðað er við að starfshópurinn skili niðurstöðum fyrir 1. nóvember nk.