Ánægja með útilistaverk Erró

Umhverfi Framkvæmdir

""

Útilistaverk Erró á gafli Álftahóla 4 – 6 er tilbúið og var því formlega fagnað í dag.  Margir mættu til að samgleðjast listamanninum og Reykjavíkurborg með áfangann.

Efri hluti myndarinnar á Álftahólum sést úr mikilli fjarlægð. Neðri hlutinn birtist svo þegar komið væri nálægt myndinni. Hugmyndin er að láta listaverkið kalla fólk langt að og bjóða því inn í hverfið til að njóta heildarmyndarinnar. Erró útfærði teikningu sína í samráði við Listasafn Reykjavíkur á tvær byggingar í Breiðholti, annars vegar á Álftahóla og hins vegar á íþróttamiðstöðina við Austurberg. Fígúrur úr myndinni á gaflinum á Álftahólum verða stækkaðar á bogadreginn vegg íþróttahússins við Austurberg.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lýsti í ávarpi sínu mikilli ánægju með verkið og samstarf við listamenn um að færa listina inn í Breiðholt, en borgarráð ákvað á síðasta ári að fjölga listaverkum í opinberu rými í hverfinu til að fegra það, skapa umræðu og laða gesti borgarinnar í Breiðholt.

Erró er heiðursborgari Reykjavíkur og hefur í gegnum tíðina sýnt Reykjavíkurborg og Listasafni Reykjavíkur rausnarskap með því að gefa safninu verk sín. Verk eftir Erró hafa verið sýnd á mörgum helstu söfnum Evrópu og víða um heim. Veggmyndir hans prýða merkar byggingar í mörgum borgum og hafa mikið aðdráttarafl og aukið umhverfisgæði þar sem þær hafa verið settar upp.