Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttakona í ÍR, sem varð heimsmeistari í 800 metra hlaupi 17 ára og yngri og Evrópumeistari í 800 metra hlaupi 19 ára og yngri, var heiðruð í Höfða í gær með pompi og prakt. Dagur B. Eggertsson, staðgengill borgarstjóra, sagði Anítu vera einstaka íþróttakonu sem allir væru stoltir af og færði henni hamingjuóskir með glæsilegan árangur á tveimur stórmótum.
Aníta varð heimsmeistari í 800 metra hlaupi kvenna á heimsmeistaramóti 17 ára og yngri í Donetsk í Úkraínu þann 14. júlí síðastliðinn. Sex dögum síðar bætti hún við Evrópumeistaratitli í 800 metra hlaupi á EM 19 ára og yngri sem fram fór á Ítalíu.
Hjálmar Sigurþórsson, formaður ÍR, sagði að frjálsíþróttadeild félagsins væri sú stærsta í Evrópu. Um 750 iðkendur æfa frjálsar með félaginu og nú þegar hafi borist fyrirspurnir erlendis frá um hvernig starfið fari fram hjá félaginu. Hann færði Anítu ljósmynd þar sem sést þegar hún kemur í mark með hægri hendi á lofti eftir sigurinn. Aníta er að vonum ánægð með árangurinn en framundan hjá þessari ungu frjálsíþróttastjörnu er Meistaramót Íslands sem fram fer á Akureyri um helgina.