102 ára og stundar daglega þjálfun með aðstoð stafræns þjálfara
Reykvíkingurinn Stefán Ólafur Jónsson, sem er 102 ára gamall, er einn þeirra sem nýtir sér fjarþjálfun í heimahúsi, með aðstoð stafræns einkaþjálfara. Fjarþjálfunin er tilraunaverkefni hjá Reykjavíkurborg og stendur því fólki til boða sem fær heimaþjónustu í Reykjavík.
Fjarþjálfunarverkefnið er samstarf á milli endurhæfingarteyma Reykjavíkurborgar, sem sinna endurhæfingu fólks sem fær heimaþjónustu, og Velferðartæknismiðjunnar, en á vettvangi hennar eru nýjar lausnir í velferðarþjónustu þróaðar og prófaðar. „Þetta virkar þannig að fólk fær spjaldtölvu heim til sín og í henni er smáforrit með prógrammi sem hefur verið sérsniðið fyrir hvern einstakling. Það þarf bara að ýta á einn takka og þá birtist stafrænn þjálfari á skjánum og fólk gerir æfingarnar með honum,“ segir Katrín Þóra Sigurbjörnsdóttir, íþróttafræðingur í endurhæfingarteymi Reykavíkurborgar. „Með því að bjóða upp á fjarþjálfun getum við veitt fleira fólki þjónustu. Fleiri geta fengið styrktarþjálfun heim til sín, því við þurfum ekki að fara á staðinn í hvert einasta sinn. Með verkefninu vonumst við til þess að fólk viðhaldi styrk sínum og færni til þess að búa heima hjá sér og geti athafnað sig í daglegu lífi, eins og það vill,“ segir hún.
Líkamsræktin einhæfari áður en hann hóf fjarþjálfun
Einn þeirra sem stundar fjarþjálfunina samviskusamlega er Stefán Ólafur Jónsson sem, þrátt fyrir að hafa náð háum aldri, býr við góða heilsu í eigin húsnæði í Reykjavík. Hann hefur alla tíð verið meðvitaður um mikilvægi líkamsræktar. „Þegar ég var yngri var ég dálítið í handboltanum, svo þegar ég hætti að vinna fór ég í leikfimi, var 2–3 tíma í leikfimi. En ég var líka í dansi, sem er líkamsrækt!“ segir hann. Hann hann kann vel við fjarþjálfunina. „Mér finnst þetta ágætt, þetta stjórnar mér alveg með æfingar. Ég var nú að gera æfingar áður en ég fékk spjaldtölvuna en þær voru einhæfari,“ segir hann. „Kostirnir við tækið eru tvímælalaust að maður sér hvernig á að gera hverja æfingu. Þetta er dálítð merkilegt tæki, að það sé hægt að setja æfingarnar svona upp á skjá, bæði myndrænt og í tali. Ég myndi hiklaust ráðleggja fólki að fá svona tæki ef það er ekki í markvissum æfingum hjá þjálfara, þá kemur það í staðinn fyrir þjálfara sem er í líkamsræktarstöðvum.“
Hér fyrir neðan má horfa á viðtal við Stefán Ólaf og sjá hvernig hann nýtir sér tæknina.
Hópar hittast á félagsmiðstöðvum og æfa saman
Fjarþjálfunarforritið sem notast er við er þróað í Svíþjóð, í samstarfi við sjúkraþjálfara og sveitarfélög sem vilja bjóða íbúum sínum upp á gott aðgengi að æfingum til þess að auka jafnvægi og almennan styrk. Auk þess að vera hannað fyrir æfingar heima býður forritið upp á þann möguleika að hópar hittist og æfi saman undir leiðsögn stafræna þjálfarans.
Nokkrar félagsmiðstöðvar í Reykjavík hafa nýverið bætt slíkri leikfimi á dagskránna hjá sér. Félagsmiðstöðin í Hvassaleiti var fyrst til þess að hefja þátttöku í verkefninu en þar er leikfimin vel stunduð og hefur vakið mikla lukku meðal þátttakenda.
Smelltu hér til að skoða hvar félagsmiðstöðvar er að finna í borginni.
Íbúar Reykjavíkur sem eru með heimaþjónustu geta rætt við starfsfólk um möguleikann á að fá fjarþjálfun heim. Þeim sem ekki hafa heimaþjónustu en hafa áhuga á að auka við hreyfingu er bent á að kanna úrvalið í félagsmiðstöðvum borgarinnar.