Fossvogsblettur - Nýr leikskóli
Hvað verður gert?
Leikskólabyggingin, mhl 01, er ein hæð með „flötu “ þaki og stendur austast á lóðinni. U-laga form hennar myndar eins konar faðm til vesturs þar sem skjólgott og rólegt útisvæði myndar aðkomutorg leikskólans. Sorp- og hjólageymslur eru í sérbyggingum, mhl 02 og 03.
Skólinn mun hýsa 10 leiskóladeildir sem dreifast í þrjá húshluta. Hver deild samanstendur af heimastofu, tveimur hóprýmum og snyrtingu. Deildirnar sameinast um matstofur og opin rými.
Yngstu börnin eru í suðurhluta byggingarinnar þar sem eru fjórar deildir. Miðstig skólans verður í austurhlutanum þar sem eru þrjár deildir og elstu börnin verða í norðvesturhluta byggingarinnar þar sem eru þrjár deildir. Í norðurhluta byggingarinnar, á milli deilda mið- og efsta stigs, eru fjölnotasalur, bókasafn/opið rými, listasmiðja, eldhús skólans ásamt aðstöðu starfsfólks.
Sérstakur inngangur er í hvern húshluta leikskóladeildanna, í góðum tengslum við fataherbergi nemenda sem svo tengjast beint við matstofur/opin rými deildanna.
Inngangur starfsfólks er að norðanverðu og tengist beint við aðstöðu þess. Inngangur í eldhús leikskólans er einnig að norðanverðu. Inngangur fyrir gesti er að norðvestanverðu, í góðum tengslum við rými yfirstjórnar skólans.
Í grunninn er fyrirkomulag deildanna mjög líkt að undanskildum snyrtingum þeirra. Á deildum fyrir yngstu börnin sameinast tvær deildir um snyrtingu. Snyrtingarnar taka mið af aldurshópnum og þ.a.l. er gert ráð fyrir tveimur skiptiborðum, tveimur salernum og koppasvæði á hvorri snyrtingu. Á deildum fyrir eldri nemendur hefur hver deild sína snyrtingu þar sem gert er ráð fyrir tveimur salernum og möguleika á skiptiborði. Á öllum snyrtingum er gerð ráð fyrir nemendum í hjólastól. Einnig er gert ráð fyrir snyrtingum í tengslum við fataherbergi nemenda.
Gert er ráð fyrir að aðstaða starfsfólks geti rúmað allt að 60 manns samtímis. Í tengslum við aðstöðu þess eru þrjár snyrtingar, þar af ein með sturtu. Til viðbótar við þær er gert ráð fyrir einni snyrtingu fyrir starfsfólk í suðurhluta byggingarinnar. Allir starfsmenn fá munaskáp í aðstöðu starfsfólks.
Eldhúsið er framleiðslueldhús þar sem hádegisverður er eldaður. Morgunverður og kaffihressingar verða jafnframt útbúnar á staðnum. Starfsfólk eldhússins hefur sérsnyrtingu ásamt skiptiaðstöðu við hlið eldhússins.
Byggingin verður Svansvottuð.
Hvernig gengur?
Nóvember 2025
Aðaluppdrættir hafa verið lagið inn til byggingarfulltrúa.
Stefnt er á að hefja jarðvinnu á þessu ári.
Hver koma að verkinu?
Verkkaupi
Umhverfis- og skipulagssvið
Skrifstofa framkvæmda og viðhalds