Framkvæmdaleyfi

Teikning af Hallgrímskirkju, Perlunni og íbúðarhúsi.

Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík gefur út framkvæmdaleyfi fyrir meiriháttar framkvæmdum sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku innan borgarmarkanna.

Nánar

Embætti skipulagsfulltrúans í Reykjavík gefur út framkvæmdaleyfi fyrir meiriháttar framkvæmdum sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingum lands með jarðvegi eða efnistöku innan borgarmarkanna.

Hverjir geta sótt um framkvæmdaleyfi?

Meginreglan er sú að framkvæmdaraðili sæki sjálfur um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdaleyfi er gefið út á grundvelli deiliskipulags, en þó í undantekningatilvikum á grundvelli aðalskipulags.

Hvaða framkvæmdir eru framkvæmdaleyfisskyldar?

Framkvæmdir sem geta verið háðar framkvæmdaleyfi eru meðal annars eftirfarandi: Nýir vegir og enduruppbygging vega, stígar, brýr í dreifbýli, þar með talið umferðar- og göngubrýr, umferðarbrýr í þéttbýli, flugvellir og flugbrautir, hafnarmannvirki, efnistaka á landi, úr ám, vötnum og af eða úr hafsbotni innan netlaga, stíflur eða breytingar á árfarvegi, þó ekki stíflur vegna virkjana, borun eftir heitu eða köldu vatni, varnargarðar eða fyrirhleðslur vegna ár-, sjó- eða ofanflóða, stofn-, dreifi- og flutningskerfi fráveitu, hitaveitu, vatnsveitu, fjarskipta, rafveitna og verulegar breytingar á slíkum mannvirkjum, breytingar lands með jarðvegi svo sem efnislosun, landmótun (til dæmis manir), urðunarstaðir, nýræktun skóga, hvort sem um er að ræða nytjaskóg eða útivistarskóg eða skógareyðing, landfyllingar, endurheimt votlendis, framræsing lands, framkvæmdir á skíðasvæðum, tjaldsvæðum, golfvöllum og öðrum svæðum til íþróttaiðkunar.

Framkvæmdir sem teljast óverulegar eru ekki háðar framkvæmdaleyfi en geta þó verið skipulagsskyldar. Með óverulegri framkvæmd er átt við framkvæmd sem hefur óveruleg áhrif á umhverfið og ásýnd þess.

Hvernig er sótt um framkvæmdaleyfi?

  • Sótt er um á Mínum síðum Reykjavíkurborgar. Umsækjandi verður að fylla út eyðublaðið og láta fylgja þau gögn sem beðið er um, að öðrum kosti er umsókn ekki tekin til greina. 
  • Þegar öll gögn liggja fyrir, er umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa. Krafa um afgreiðslugjald mun berast í heimabanka viðkomandi.  Greiðsla verður að hafa borist fyrir kl. 14.00 á sunnudegi til að erindið verði tekið fyrir á næsta afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa, en þeir eru er að jafnaði haldnir á hverjum þriðjudegi.
  • Hægt er að kæra synjun framkvæmdaleyfis til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
  • Embætti skipulagsfulltrúa sendir öllum umsækjendum skriflegt svar með upplýsingum um hvernig erindið var afgreitt. 
  • Samhliða því að umsækjandi fær upplýsingar um afgreiðslu erindis er  framkvæmdaleyfi samþykkt og gefið út. Að því loknu getur umsækjandi hafið framkvæmdir. Gjald vegna framkvæmdaleyfis skal greiða fyrir samþykkt og útgáfu framkvæmdaleyfis samkvæmt gjaldskrá vegna kostnaðar við skipulagsvinnu og útgáfu framkvæmdaleyfa í Reykjavíkurborg númer 1111/2014

Vinsamlegast athugið að framkvæmdaleyfi fellur úr gildi hafi framkvæmd ekki hafist innan tólf mánaða frá útgáfu leyfisins. Framkvæmd telst hafin þegar hreyft hefur verið við yfirborði jarðvegs á framkvæmdastað.

Hvaða gögn þurfa að fylgja umsókninni?

Upplýsingar um nauðsynleg fylgigögn má finna í umsókninni. Helstu upplýsingar sem skulu koma fram eru:

  • Lýsing á fyrirhuguðum framkvæmdum
  • Tímaáætlun og kostnaðaráætlun um fyrirhugaðar framkvæmdir
  • Afstöðumynd, hnitsett í mælikvarða 1:2.000-1:500
  • Hönnunargögn, ef við á
  • Samþykki landeiganda, ef við á
  • Leyfi annarra leyfisveitanda, ef við á
  • Önnur gögn, ef við á

Ítarlegri gögn þurfa að fylgja með umsókn ef framkvæmd byggir á aðalskipulagi, sjá betur í reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Teikningar af húsum má fá á teikningavef og hjá þjónustuveri Reykjavíkur með því að senda tölvupóst á netfangið upplysingar@reykjavik.is. Einnig er hægt að nálgast aðal- og deiliskipulag á skipulagssjá.