Fjárfestingaráætlun
Innleiðing Græna plansins
Framtíðarsýn Græna plansins verður innleidd nánar á komandi misserum í nýjum og uppfærðum stefnum og aðgerðaáætlunum. Á meðal lykilverkfæra Græna plansins er fjármálastefna til 10 ára, fjárhagsáætlun til fimm ára og fjárfestingaráætlun til 10 ára.
Innleiðing Græna plansins á næstu árum felur í sér markvissa áherslu á fjárfestingu, samstarf, forgangsröðun og mælingar.
Fjárfestingaráætlun til 2030 í stuttu máli
1.
Á næstu 10 árum mun Reykjavíkurborg fjárfesta 220 milljörðum í að byggja upp vaxandi græna borg fyrir fólk undir merkjum Græna plansins sem stefnir að betra umhverfi, efnahag og samfélagi. Fyrirtæki í eigu borgarinnar munu jafnframt auka fjárfestingar sínar, einkum í grænum innviðum veitufyrirtækjanna og félagslegu húsnæði fyrir tekjulága.
2.
Átak verður í uppbyggingu búsetuúrræða fatlaðs fólk og heimilislausra og eftir þörfum fjárfest í nýjum störfum fyrir atvinnulausa og stuðningsúrræðum og virkni fyrir fólk á fjárhagsaðstoð.
3.
Borgarlínan verður byggð upp auk heildstæðs hjólastígakerfis fyrir höfuðborgarsvæðið í samvinnu við ríkið og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík vill verða hjólaborg á heimsmælikvarða með fjármögnun nýrrar hjólreiðaáætlunar.
4.
Allri þjónustu og afgreiðslu sem hægt er að færa á netið verður umbreytt á næstu árum með fjárfestingu í upplýsingatækni og stafrænni umbreytingu borgarinnar.
5.
Nýir skólar rísa í Skerjafirði, Vogabyggð og Ártúnshöfða og leikskólaplássum verður fjölgað til að taka einnig inn 12 mánaða gömul börn. Markmiðið er að nýju hverfin í Ártúnshöfða og Skerjafirði verði grænustu hverfi sem risið hafa í Reykjavík.
6.
Fjárfest verður í viðhaldsframkvæmdum. Fjárveitingar til endurnýjunar eldra skólahúsnæðis verða stórhækkaðar og borgarbókasafnið í Grófarhúsið og Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi munu ganga í endurnýjun lífdaga.
7.
Götur í öllum hverfum fái grænna yfirbragð en áður og meiri gróður, græn svæði og almenningsgarðar verða fegraðir, ásýnd borgarinnar verður blómlegri og skógrækt verður aukin með gróðursetningu Loftslagsskóga Reykjavíkur.
8.
Lýðheilsa, hreyfing og íþróttaþátttaka verður efld með fimleikahúsum í Breiðholti og Árbæ, knatthúsum í Vesturbæ og betri íþróttaaðstöðu víða um borgina. Þrjár nýjar sundlaugar eru á tíu ára áætlun: í Úlfarsárdal, Fossvogi og í Elliðaárvogi. Laugardalslaug verður endurnýjuð frá grunni.
9.
Áningarstaðir og inniviðir til útivistar verða byggðir upp í Elliðaárdal og Öskjuhlíð og sjóbaðsaðstaða á völdum stöðum við strandlengjuna. Vetrargarður verður byggður upp í Breiðholti og skíðasvæðin í Bláfjöllum stórefld. Útivistarmöguleikar verða bættir við Rauðavatn og á Hólmsheiði þar sem einnig verða gerðar reiðleiðir.
10.
Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að fjárfesta í innviðum þar sem næstu 10.000 íbúðir í Reykjavík rísa. Þær verða af öllum stærðum og gerðum, fyrir allan aldur og tekjuhópa og flestar staðsettar nálægt Borgarlínu og lifandi atvinnukjörnum.
11.
Grænt fjárfestingarátak er eitt af lykilverkfærum Græna plansins til að flýta þróun borgarinnar í átt að kolefnishlutleysi. Áhersla er á að fjárfestingar uppfylli skilyrði fjármögnunar með grænum og samfélagslegum skuldabréfum. Markmiðið er að samhæfa fjárfestingar fyrirtækja í eigu borgarinnar við grænt fjárfestingarátak Reykjavíkurborgar.