Félagsmiðstöð í Spöng tekin í notkun

Velferð Framkvæmdir

""

Á laugardag verður Félagsmiðstöð í Spöng í Grafarvogi tekin formlega í notkun og mun hún bæta þjónustu við eldri borgara í hverfinu. Byggingarkostnaður við Félagsmiðstöðina var 30 milljónum króna undir kostnaðaráætlun. 

Íbúar Eirborgar munu njóta þjónustu í nýju Félagsmiðstöðinni, en innangengt er um tengigang milli bygginganna. Korpúlfar, félag eldri borgara í Grafarvogi, verður með aðstöðu fyrir félags- og tómstundastarf sitt og Grafarvogssókn verður með kirkjusel í húsinu.

Matsalur með móttökueldhúsi er í Félagsmiðstöðinni, auk fjölnotasala sem hægt er að opna á milli og skapa stærra rými. Þá er gengt úr fjölnotasölum í skjólsælan suðurgarð hússins.  Í húsinu verður aðstaða fyrir fótsnyrtingu og hárgreiðslu og á efri hæð opna dagdeild fyrir heilabilaða og skrifstofa félagslegrar heimaþjónustu Reykjavíkurborgar. 

Undir kostnaðaráætlun

Framkvæmdakostnaður við hús og lóð er 695 milljónir króna, en kostnaðaráætlun eftir að endanleg hönnun lá fyrir hljóðaði upp á 726 milljónir króna (uppreiknað miðað við verðlag í desember 2013). Mannvirkið er því fullbúið 30 milljónum króna undir kostnaðaráætlun. Auk þess var veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra að upphæð 95 milljónir króna.  Byggingakostnaður er 453 þús. krónur á fermetra án búnaðar. Innri leiga reiknast á 2.900 krónur á fermetra.

Guðmundur Pálmi Kristinsson verkefnisstjóri bygginganefndar er að sönnu ánægður með þennan árangur og þakkar hann góðri kostnaðargát og hagnýtingu reiknilíkans um líftímakostnað, en Félagsmiðstöðin í Spöng var prófsteinn á innleiðingu þess. „Það er ekki hægt að spara nema vita hvar kostnaðurinn liggur,“ segir hann. „Það er mikilvægt að sýna fram á hvernig hægt er að lækka rekstrarkostnað með hagkvæmari og vandaðri byggingarefnum. Við verðum að þróa og mynda hagkvæmt jafnvægi milli stofn- og rekstrarkostnaðar.“

Reiknilíkan vegna líftímakostnaðar mannvirkja er á ensku kallað Life Cycle Cost - LCC.  Þar er horft í samhengi annars vegar á stofnkostnað og hins vegar árlegan umsýslu-, rekstrar- og viðhaldskostnað.  Þannig er fundinn út árskostnaður yfir líftíma mannvirkisins.  Byggt er á reynslu Norðmanna, en Statsbygg í Noregi hefur frá árinu 1998 gert kröfu um að gerðir séu árskostnaðarreikningar fyrir allar opinberar byggingar í Noregi.

Langur aðdragandi

Bygging hússins á sér langan aðdraganda og voru margvíslegar hugmyndir uppi á undirbúningstíma. Þegar línur höfðu skýrst um hverjir myndu verða innan veggja með þjónustu sína samþykkti borgarstjórn á fundi sínum í júní 2011 að skipa byggingarnefnd til að halda utan um útfærslur. Húsið er í anda þeirra ákvarðana og er 1.400 fermetrar að stærð.  Notendur hússins verða Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Hjúkrunarheimilið Eir, Grafarvogssókn og Korpúlfar.

Arkitektar eru THG arkitektar hf., sérteikningar Efla hf , lóð Landark og daglegt eftirlit VSÓ Ráðgjöf og aðalverktakar Steinmótun hf. og Sveinbjörn Sigurðsson hf. 

Opið hús á laugardag

Á laugardag kl. 13 – 15 er opið hús í nýju Félagsmiðstöðinni í Spöng og geta gestir þá skoðað húsið. Korpúlfar, samtök eldri borgara í  Grafarvogi, taka vel á móti fólki í nýju húsakynnum sínum í Félagsmiðstöðinni. Þá mun stýrihópur um framtíðarsýn Gufuness kallar eftir hugmyndum og ábendingum íbúa um uppbyggingu svæðisins. Nánar má sjá um dagskrá í fréttinni Grafarvogsdagurinn er á laugardaginn

 

Nánari upplýsingar um Félagsmiðstöðina í Spöng: