Spurt og svarað hjá Bílastæðasjóði

Hér er að finna algengar spurningar og svör við spurningum um bílastæði, gjöld og fleira því tengdu.

Listi spurninga

Hver er munurinn á sektum og gjöldum?

Lögreglan sér um að sekta til dæmis vegna hraða, ölvunar, ekið yfir á rauðu ljósi og þessháttar. Brot er varða sektum eru talin upp í 94. og 95.grein umferðarlaga nr. 77/2019.

Gjöld eða stöðvunarbrotagjöld skiptast í aukastöðugjöld (ef ekki greitt fyrir gjaldskylt stæði, stundum nefndar "stöðumælasektir" en eru gjöld en ekki sektir) og stöðubrot.

Gjöld vegna stöðubrota tengjast stöðvun og/eða lagningu ökutækja, til dæmis uppá gangstétt, á gangbraut, við vegamót, í stæði hreyfihamlaðra og svo framvegis. Bæði lögregla og stöðuverðir sjá um eftirlit með stöðubrotum og þau eru talin upp í 28. og 29. gr. umferðarlaga númer 77/2019 og víðar. 

Í eldri umferðarlögum (nr. 50/1987) voru sektir við nokkrum brotum sem tengjast stöðvun og/eða lagningu bifreiða, til dæmis fyrir innkeyrslu, brunahana og öfugt við akstursstefnu (þ.e. "á vegi má einungis stöðva ökutæki eða leggja því hægra megin"). Sú breyting varð 1.1.2020 að við þessum brotum er núna gjöld en ekki sektir.

Hvernig borga ég stöðvunarbrotagjald?

  • Gjaldið birtist í heimabanka umráðamanns (eiganda) bifreiðarinnar. Greitt er með því velja ógreidda reikninga í heimabanka og greiða á sama hátt og aðra reikninga.
  • Ef greiðandi er ekki umráðamaður/eigandi er hægt að velja að greiða sem greiðsluseðil. Athuga að setja inn kennitölur sem eru í kröfulínunni, ekki kennitölu greiðanda.
  • Greiða í banka.
  • Greiða á vefnum

    Nánari upplýsingar hér.

  • Athugið að ekki ert hægt að millifæra greiðslu á Bílastæðasjóð 

     

Má ég leggja fyrir innkeyrslunni minni?

Nei, samkvæmt umferðarlögum númer 50/1987 og númer 77/2019 þá er það ekki heimilt. Umferðarlögin gera engan greinarmun á hvort viðkomandi er eigandi innkeyrslunnar eða ekki, enginn er undanþeginn þessu ákvæði. Tvær breytingar urðu varðandi þetta ákvæði í umferðarlögum sem tóku gildi 1.1.2020, annarsvegar orðalag og hinsvegar að ekki eru lengur sektir við þessari grein umferðarlaganna heldur gjald. 

Er hægt að færa álagningu á milli aðila?

Álagning stöðvunarbrotagjalds miðast við skráðan eiganda/umráðamann samkvæmt ökutækjaskrá og er Bílastæðasjóði óheimilt að færa kröfu á milli aðila. Aðrir en skráðir eigendur/umráðamenn geta greitt álagningu í bönkum, sparisjóðum og heimabanka.

Ef þú ert ekki eigandi getur þú greidd í heimabanka  með því að velja Greiðslur -> Greiðsluseðlar og slá inn kröfunúmer. Upplýsingar um kröfunúmer má nálgast hjá eiganda/umráðamanni eða í þjónustuveri í síma 4111111. Mikilvægt er að kennitölu greiðanda sé ekki breytt heldur skal kröfunúmer slegið inn eins og það birtist á seðlinum.

Eru atvinnubílar (til dæmis sendibílar) undanþegnir gjaldskyldu við lestun og losun þeirra?

Ekkert í lögum segir að undanskilja beri sendibílstjóra frá gjaldtöku fyrir afnot af stöðumælareit og ekki er heimilt að stöðva eða leggja sendibílum þar sem almennt er bannað að stöðva eða leggja bifreiðum.

Í 26. lið 1.mgr. 3. gr. umferðarlaga segir að lagning ökutækis telst "staða ökutækis, með eða án ökumanns, lengur en þarf til að hleypa farþegum inn eða út, lesta það eða losa". Þessi málsgrein hefur verið notuð sem rök fyrir því að heimilt sé leggja bifreiðum sem verið er að lesta/losa á öllum stöðubrotum en vakin er athygli á því að í 28. og 29. grein umferðarlaganna þar sem er talað um að eigi má stöðva ökutæki eða leggja (gangstétt, á gangbraut eða í minna en 5 metra fjarlægð, á vegamótum eða í minna en 5 metra frá næstu brún akbrautar á þvervegi, í stæði hreyfihamlaðra og svo framvegis) á skilgreiningin um lagningu ökutækis ekki við.

Hvernig get ég fengið gjald endurskoðað? Hvað er endurupptaka?

Skv. stjórnsýslulögum (24. gr. nr 37/1993) getur málsaðili óskað eftir endurupptöku máls ef ákvörðun um málið hefur byggst á m.a. ófullnægjandi eða röngum upplýsinum. Þ.e. málsaðili (sá sem fær á sig gjald) getur óskað eftir að gjaldið sé tekið til endurskoðunar, telji hann rangt staðið að álagningunni (gjaldinu). Einungis er hægt að óska eftir endurupptöku á heimasíðu Bílastæðasjóðs.

Hver er munurinn á endurupptöku og andmælum?

Skv. 13. gr. stjórnsýslulaga hefur aðili máls andmælarétt áður en stjórnvald tekur ákvörðun í málinu. Skv. 24. gr. sömu laga kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun getur aðili máls óskað eftir að það sé tekið til meðferðar á ný, þ.e. óskað er eftir endurupptöku. Þannig að þó flestir tali um að andmæla gjaldi þá er hið rétta að um er að ræða endurupptöku.