Toppstöðin til sölu: Einstök eign í hjarta Elliðaárdalsins

Reykjavíkurborg auglýsir eftir áhugasömum kaupendum að fasteign sinni við Rafstöðvarveg 4, Reykjavík, svonefnd Toppstöð.

Um er að ræða stálgrindarhús sem er skráð 6483,0 m² að flatarmáli á einstökum stað í Elliðaárdalnum. Húsið var byggt árið 1946 og tekið í notkun árið 1948. Notkun stöðvarinnar lagðist að mestu leyti af eftir 1980.

Toppstöðin

Toppstöðin var olíu- og kolakynt varaaflstöð reist með Marshall-aðstoðinni sökum bráðrar þarfar fyrir raforku á árunum eftir seinni heimstyrjöldina. Hún gegndi mikilvægu hlutverki fram á 8. áratuginn, aðallega sem raforkustöð þegar mest álag var á kerfinu yfir vetrarmánuðina, en einnig til að skerpa á heita vatninu á mestu kuldatímum. 

Rafstöðvarsvæðið í heild sinni er mjög merkilegt í sögulegu samhengi og tengist tækni, hugviti og rafvæðingu frá upphafi byggðar í Reykjavík.

Um tíma var rekið frumkvöðlasetur í Toppstöðinni, þar sem einkum listamenn og hönnuðir hafa nýtt sér aðstöðuna. Engin starfsemi er í stöðinni í dag.

Borgarráð samþykkti árið 2016 stefnu um þróun Elliðaárdals undir heitinu „Sjálfbær Elliðaárdalur“. 

Elliðaárdalur er með stærri útivistarsvæðum í borginni. Þar er mikilvægt útivistar- og náttúrusvæði með ríka sögu.

Lóðarblað verður útbúið og lóðarleigusamningur gerður í samráði við nýjan eiganda með tilliti til þróunar á svæðinu.

Mat tilboða:

Með hliðsjón af sögulegu mikilvægi hússins og staðsetningu er haldin samkeppni þar sem kaupverð er metið 75% á móts við aðra þætti sem telja 25%.

Mun matshópur meta tillögurnar og leggja fram niðurstöðu til borgarráðs með tillögu um áframhaldandi viðræður við þann aðila sem á bestu hugmyndina að mati matshóps. 

Matsþáttur Möguleg stig
Gæði og tengsl við umhverfi, náttúru og útivist 7
Samfélagslega ábyrg framtíð 3
Hugmyndafræði 3
Sjálfbærni og kolefnisfótspor 3
Framúrskarandi hönnun 3
Frumleiki hönnunar 2
Tengsl við nálæga byggð 2
Nýsköpun 2
Hönnun samtals: 25
Boðið kaupverð: 75
Samtals stigafjöldi 100

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum tilboðum. 

Framsetning tilboðs:

Umsóknum skal skila með því að smella hér og fylla skal út umbeðnar upplýsingar. Skila þarf viðhengi með upplýsingum um aðra matsþætti.

  • Lokafrestur til að skila tilboði er 14. ágúst 2024.

Auk boðins tilboðsverðs skal umsókn fylgja upplýsingar um bjóðanda ásamt lýsing á hugmyndum hans um húsið, greinargerð og uppdrætti til skýringar á hugmyndinni. 

Bjóðendur eru eindregið hvattir til að kynna sér mikilvæga þætti matsferlis við val á innsendu kauptilboði. Þeir snúa m.a. að tengslum við umhverfi, náttúru og útivist, hugmyndafræði, hönnunar og tengsl við nálæga byggð. Þannig er skipulag, hönnun og framsetning mikilvæg. Þessu til viðbótar snýst mat hönnunar um þá nýbreytni sem fram kemur í hönnunarhugmyndum.

Auk ofangreindra þátta um skipulag og hönnun við mat á kauptilboðum byggir það einnig á hugmyndum bjóðenda um sjálfbærni og kolefnisfótspor sem vænta má við nýtingu svæðisins og mannvirkisins.

Vettvangsferð:

Boðið verður upp á vettvangsferð um húsið fyrir áhugasama bjóðendur samkvæmt samkomulagi. Óskir um vettvangsferð skal senda á netfangið esr@reykjavik.is

Annað:

Áhugasömum er bent á reglur sem gilda um framkvæmdir vegna nálægðar við laxveiðiá sbr. lög um lax- og silungsveiði nr. 61/2006.

  • Frétt um söluna á vef Reykjavíkurborgar finnur þú hér
  • Teikningar er að finna á vef Reykjavíkurborgar hér
  • Áhugasömum er bent á að kynna sér vel gögn sem fylgja auglýsingu
  • Umsóknum skal skila með því að smella hér