Þjónusta sem skiptir máli
Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024
Stafræn vegferð Reykjavíkur
Í dag er lítil þörf á að tala sérstaklega um stafræna þjónustu. Hún er einfaldlega sjálfsagður hluti af okkar daglega lífi. Stafrænt bara er.
En til að byggja upp borg þar sem stafrænt er sjálfsagt þarf að hlúa að nýsköpun og skapandi hugsun. Með því hugarfari er hægt að endurhugsa opinbera þjónustu og gera hana betri. Og það er það sem stafræn umbreyting snýst í grunninn um: að bæta þjónustu.
Starfsfólk tilbúið að taka þátt
Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að gera þjónustu borgarinnar aðgengilegri, notendamiðaðri og skilvirkari. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur leitt þessar breytingar og stutt önnur svið á sinni vegferð.
Fjöldi þjónustuferla hafa verið endurhugsaðir og -hannaðir með verkfærum þjónustuhönnunar, ásamt því að stafrænar lausnir hafa verið innleiddar eftir þörfum.
Þó að þarfir séu ólíkar milli sviða hefur verið lagt upp með sömu megináherslur þvert á borgina: betri yfirsýn, skýrari forgangsröðun og ný nálgun í verkefnavinnu.
Brú milli sviða
Á hverju sviði starfar stafrænn leiðtogi sem veitir ráðgjöf, kortleggur tækifæri og fylgir verkefnum frá hugmynd að innleiðingu. Þau eru tengiliðir milli sviða og stuðla að samræmdu verklagi og forgangsröðun.
Með markvissri samvinnu hefur tekist að byggja upp yfirsýn, draga úr tvíverknaði og efla traust innan borgarinnar. Árið 2023 lauk umfangsmiklu fjárfestingarátaki og því fór árið 2024 að mestu í að tengja það við daglegan rekstur, endurmeta verkefni og festa stafræna nálgun í sessi.
Byggjum upp stafræna sjálfbærni
Eftir því sem stafrænum verkefnum fjölgar eykst þörfin á reglulegu samtali milli sviða og stjórnenda. Þannig næst betri skilningur á því hvað er í vinnslu og hver áhrifin kunna að verða. Hlutverk stafrænna leiðtoga hefur þróast með starfseminni og snýst í dag líka um að hjálpa sviðunum að horfa fram í tímann.
Næstu ár þarf að halda áfram að byggja upp framtíð sem styður við stafræna sjálfbærni. Það verður aðeins gert með virkri þátttöku allra sviða borgarinnar. Þjónustu- og nýsköpunarsvið heldur áfram að gegna veigamiklu hlutverki í stafrænni vegferð borgarinnar, en á sama tíma verður lögð aukin áhersla á að valdefla sviðin.
Vegvísar inn í framtíðina
Árið 2024 unnu sviðin með stafrænum leiðtogum að vegvísum þar sem kortlögð voru umbótatækifæri. Þetta var fyrsta skrefið í auknu eignarhaldi fagsviða.
Vegvísarnir voru kynntir stafrænu ráði síðla árs og verða grunnur að áframhaldandi þróun.
Á árinu 2025 verður lögð enn meiri áhersla á að styrkja þetta eignarhald með aukinni fræðslu, stuðningi og skýrari stefnu.
Skoðum stóru myndina
Með því að móta árlega sýn fyrir hvert svið verður auðveldara að forgangsraða verkefnum, fjármagna þau rétt og tryggja að þau skili árangri. Þannig skapast gagnsæi og sameiginlegur skilningur.
Dreifing ábyrgðar til þeirra sem eiga þjónustur borgarinnar stuðlar að víðtækari umbreytingum og gerir þjónustu- og nýsköpunarsviði kleift að leggja meiri áherslu á að skoða stóru myndina, vera á undan í þróun og auka samstarf við fagsamfélagið, ríkið og önnur sveitarfélög.