Þjónusta sem skiptir máli
Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024
Gögn eiga að vera aðgengileg
Þorbjörn Þórarinsson er vörustjóri gagna hjá gagnaþjónustu borgarinnar. Hann hóf störf hjá borginni fyrir fimm árum, fyrst sem gagnasérfræðingur. Sem slíkur sinnti hann fjölbreyttum verkefnum og þurfti oft að blanda saman verkefnastýringu og vörustýringu. Hann segir það fljótlega hafa komið í ljós að það vantaði einhvern sem gæti haldið utan um stóru myndina.
Starfið snýst í grunninn um að vera brúin milli notenda og þróunarteymis. Að sjá til þess að allir séu á sömu blaðsíðu og skilji hvert við stefnum og af hverju. Ég kalla þetta stundum gagnatúlkun, sem lýsir hlutverkinu ansi vel.
Gögn sem skapa verðmæti
Þjónusta borgarinnar er afar víðfeðm og á hverjum degi verða til ógrynni gagna vítt og breitt um borgarkerfið. Hlutverk gagnaþjónustunnar er að skapa virði úr þessum gögnum og koma skipulagi á gagnaumhverfi borgarinnar.
„Gögnin eru ótrúlega fjölbreytt og geyma gríðarleg verðmæti,“ segir Þorbjörn. „Reykjavík safnar gögnum um ótalmarga mismunandi málaflokka og það er svo gefandi að umbreyta þessum gögnum í eitthvað gagnlegt. Ég fæ mest út úr því þegar hægt er að setja flókin gögn fram á einfaldan og skiljanlegan hátt.“
Hlaðborð opinna gagna
„Þegar ég byrjaði hjá borginni var til svokallað Mælaborð borgarbúa. Það átti að miðla opinberum gögnum en náði aldrei almennri notkun. Við vildum taka þetta skrefinu lengra og hanna lausn sem væri aðgengileg og leiðbeinandi fyrir notendur.“
Afrakstur þeirrar vinnu var Gagnahlaðborðið sem fór í loftið í febrúar 2023. Gagnahlaðborðið er vefsvæði þar sem hægt er að skoða opin gögn borgarinnar og lesa greiningar á mannamáli. Þar er líka hægt að hlaða niður gögnum og nýta í ýmis verkefni.
Þú þarft ekki að vera sérfræðingur til að nota Gagnahlaðborðið.
Mætum fólki þar sem það er
Þorbjörn segir markmiðið vera að stuðla að gagnsærri upplýsingamiðlun svo að öll geti nýtt sér gögn borgarinnar á aðgengilegan hátt. Hann segir einnig mikilvægt að mæta fólki þar sem það er, þar sem hæfni fólks til að túlka gögn er svo misjöfn.
„Þú þarft ekki að vera sérfræðingur til að nota Gagnahlaðborðið.“
„Þú byrjar á einfaldri gagnasögu, ferð svo yfir í mælaborð og þaðan yfir í opin gagnasöfn. Þannig getur hver og einn farið eins djúpt og hann vill. Gagnasögurnar eru stuttar og hnitmiðaðar, en ef þú vilt skoða meira, þá geturðu grafið dýpra. Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem þú ert kennari, forritari eða bara forvitinn borgari.“
Aðalatriðið er þetta: gögn eiga að vera aðgengileg.
Möguleikarnir nánast endalausir
Þorbjörn segir að gagnaþjónustan vinni að ákveðnum lausnum og komist aðeins yfir svo og svo mikið hverju sinni. Möguleikarnir séu aftur á móti nánast endalausir.
„Aðalatriðið er þetta: gögn eiga að vera aðgengileg.“
„Það er oft einhver utanaðkomandi sem sér ný tækifæri. Háskólanemar, sprotafyrirtæki eða bara annað starfsfólk innan borgarinnar. Gögn geta orðið uppspretta nýrrar þjónustu eða stefnumótunar og við viljum búa til vettvang fyrir það.“
Þorbjörn segir það mikið ánægjuefni þegar vel tekst til og fólk hefur gagn af þeim lausnum sem verða til hjá borginni. „Við fengum til dæmis að heyra frá kennara sem notaði Gagnahlaðborðið í kennslu, sýndi nemendum hvernig er hægt að vinna með opin gögn og setja þau upp í Excel. Notkunin getur verið mjög fjölbreytt.“
Hann nefnir einnig jákvæð viðbrögð frá opinberum stofnunum sem nota gögnin í eigin greiningar og ákvarðanatöku. „Stofnanir sækja gögn um þjónustu og vinna þau áfram eftir eigin þörfum. Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að gögnin séu opin og aðgengileg.“
Gervigreind og önnur ný tækni byggir á gögnum, svo það skiptir máli að þau séu rétt og aðgengileg. Þegar fólk getur tekið gagnadrifnar ákvarðanir, bæði í lífi og starfi, þá einfaldar það hluti og bætir þjónustu.
Gagnamenning í þróun
Þorbjörn segir að draumurinn sé að byggja upp öfluga gagnamenningu þvert á alla borgina. Til að það gerist þurfi að huga að öruggum og traustum gagnainnviðum. Hann nefnir líka að með tilkomu gervigreindar í almenn störf sé ekki síður mikilvægt að styðja við gæði gagna og passa upp á hvernig þau eru nýtt.
„Gervigreind og önnur ný tækni byggir á gögnum, svo það skiptir máli að þau séu rétt og aðgengileg. Þegar fólk getur tekið gagnadrifnar ákvarðanir, bæði í lífi og starfi, þá einfaldar það hluti og bætir þjónustu.“
Besta leiðin að sýna
Viðhorf fólks gagnvart gögnum hefur breyst. Þorbjörn segir að fólk hafi almennt meiri áhuga á gögnum og sé tilbúið að leggja traust sitt á það sem gögnin eru að segja. „Þegar við sýnum hvað hægt er að gera með einföldum lausnum kvikna alls konar hugmyndir.“
Hann nefnir sem dæmi um þetta gagnalausnir á borð við sorphirðudagatal og kjörstaðaleit borgarinnar. „Þegar það fór í loftið vöknuðu hugmyndir hjá öðrum – við eigum líka svona gögn, gætum við ekki gert eitthvað svipað? Þannig verða til samlegðaráhrif.“