Þjónusta sem skiptir máli
Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024
Að halda utan um tæknina og fólkið
„Ég var að skipta um starf þegar ég lenti á góðu spjalli við fyrrverandi deildarstjóra. Hann var með svo mikla ástríðu og skýra sýn, og ég bara smitaðist,“ segir Sigrún Lára Sverrisdóttir og brosir þegar hún rifjar upp hvernig hún hóf störf hjá Reykjavík.
Við erum að vinna með lausnir eins og Microsoft 365, Atlassian, Torgið og fleiri. Lausnir sem fólk notar daglega. Okkar hlutverk er að tryggja að þessar vörur virki vel, nýtist sem best og séu í góðu standi.
Stýrir teymi vörustjóra
Í dag stýrir hún teymi vörustjóra sem heldur utan um fjölbreyttar stafrænar lausnir sem borgin notar, bæði í innri starfsemi og þjónustu við íbúa.
Hún segir starfið bæði lifandi og mikilvægt: „Við erum að vinna með lausnir eins og Microsoft 365, Atlassian, Torgið og fleiri. Lausnir sem fólk notar daglega. Okkar hlutverk er að tryggja að þessar vörur virki vel, nýtist sem best og séu í góðu standi.“
Snýst ekki bara um tækni
Vörustýring snýst ekki bara um tæknilegan rekstur, heldur líka um að halda utan um heildarmyndina. „Við sjáum um að hámarka nýtingu leyfa og að kerfin verði ekki að einhverju tæknilegu skrímsli sem enginn skilur. Það gerist nefnilega oft ef enginn ber ábyrgð á kerfinu.“
Þótt teymið sé staðsett hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði vinnur það þvert á alla borgina. „Við erum í samstarfi við öll svið, því margar af þessum lausnum eru miðlægar og snerta marga. Þá skiptir öllu máli að við séum í nánu samtali, bæði við notendur og þá sem hafa yfirsýn, eins og stafrænu leiðtogana. Þannig finnum við oft leiðir til að samnýta lausnir og spara pening.“
Sumar lausnir krefjast mikillar tæknilegrar þekkingar, aðrar byggja meira á þjónustulund og samvinnu. Þetta snýst ekki um að vera best í öllu, heldur að para saman styrkleika og verkefni.
Hugarfar skiptir öllu
Sigrún Lára leggur áherslu á að vörustjóri þurfi að vera með rétt hugarfar. „Þetta er mjög mannlegt starf. Þú þarft að hlusta á fólk, skilja hvað það þarf og bregðast við því. Það þarf líka að sýna frumkvæði, sjá tækifæri og hugsa: Hvað getum við bætt? Hvar getum við sparað?“
Þá segir hún skipta máli að rétta manneskjan sé með réttu vöruna.
„Sumar lausnir krefjast mikillar tæknilegrar þekkingar, aðrar byggja meira á þjónustulund og samvinnu. Þetta snýst ekki um að vera best í öllu, heldur að para saman styrkleika og verkefni.“
Áskoranir og ávinningur
Á síðasta ári stóð vörustjórateymið frammi fyrir því að koma vörustýringu í rekstur. Virk vörustýring er mikilvægur hluti þess að lausnir séu sjálfbærar og ætti að vera hluti af nauðsynlegum rekstrarkostnaði. „Við þurftum að sýna sviðunum hvað við erum að gera og hvers vegna það skiptir máli. Fólk vill eðlilega vita hvað það er að borga fyrir og við verðum að vera tilbúin að útskýra það – alltaf.“
En ávinningurinn hefur ekki látið á sér standa. „Til dæmis í Azure Future-verkefninu náðist mikill sparnaður. Þar var vörustjóri sem hafði bæði áhuga og tíma til að kafa ofan í hlutina. Það gerði gæfumuninn.“
Hún nefnir líka sem dæmi ýmsar mannauðs- og launalausnir: „Þar hefur vörustjóri unnið mjög vel með sínu sviði og það hefur auðveldað innleiðingar og bætt þjónustuna.“
Við stefnum að því að allar stærri miðlægar lausnir verði í vörustýringu. Þannig getum við veitt sviðunum betri þjónustu og komið í veg fyrir óþarfa kostnað.
Framtíðin krefst undirbúnings
Sigrún Lára er bjartsýn á framhaldið. „Við stefnum að því að allar stærri miðlægar lausnir verði í vörustýringu. Þannig getum við veitt sviðunum betri þjónustu og komið í veg fyrir óþarfa kostnað.“
Hún segir að framtíðin krefjist samt líka undirbúnings. Gervigreind og sjálfvirknivæðing séu að ryðja sér til rúms og við þurfum að vera tilbúin að takast á við það. „En það gerist ekki nema við höfum tíma og rými. Ef við erum föst í því að laga gamalt og elta tækniskuld, þá nýtum við ekki möguleikana sem framtíðin býður upp á. Það er það sem vörustýring snýst um. Að skapa rými fyrir nýsköpun og styrkja grunninn sem borgin byggir þjónustu sína á.“